Roknes

Hiti 8 stig. 14 m/sek á hásunnan. Þegar þanninn viðrar er mæting ívið betri en alla jafna. Nú voru um 20 hlauparar mættir og mátti sjá eftirvæntinguna lýsa úr hverju andliti. Sérstaklega skal getið nærveru dr. Friðriks. Rúnar var leyndardómsfullur, gaf fyrirmæli um að fara í skjóli húsa út í Bakkavör, en svo kæmi í ljós hvað yrði í boði. Viðstaddir heimtuðu nánari fyrirmæli, en þau fengust ekki. Þetta byrjaði ekki vel. Óvæntir hlutir í uppsiglingu, ekki gott!

Fólk almennt vel klætt, sumt eins og það væri á leið til eyðimerkurdvalar. Hópurinn fór af stað og fór rólega upp á Víðimel og þaðan í vestur og út á Nes. Sumir þungir eftir átakahlaup síðustu viku. Sáum Rúnu og Brynju og fleiri Neshlaupara, þær virtust ráðvilltar, enda þegar blæs úr öllum áttum á Nesi er úr vöndu að ráða. Við áfram út að Bakkavör. Þá var gefin skipun um hlaup upp brekkuna, beygja svo til vinstri á Valhúsabraut og hlaupa þá götu á enda, niður tröppur sem þar eru og niður á Lindarbraut, hlaupa hana í suður og út á Suðurströnd, rólega tilbaka á Bakkavörina. Endurtaka nokkrum sinnum.

Við mættum allnokkrum mótvindi á Suðurströnd og var ekki skemmtilegt að hlaupa þá leið, annað var bærilegt í hlaupi kvöldsins. Það var talað um 2-5 sinnum þessa leið. Þessi hlaupari fór tvisvar og hálfu sinni, fór milliveginn, en til þess að forða því að deyja úr leiðindum beygði hann af og snöri skemmstu leið tilbaka. Ég veit að Kalli, Þorvaldur og Maggi slepptu þessum sprettum en fóru út á Lindarbraut og þaðan um húsagarða tilbaka. Aðrir tóku misjafnlega marga spretti af þessu tagi.

Það hellirigndi allan tímann og gerði hlaupara þyngri en ella. Það var þungt að fara Nesveginn í ausandi rigningu og mótvindi. Ritari hitti Kristján Skerjafjarðarskáld sem var kampakátur með nýja ríkisstjórn. Hann sagði skemmtilega sögu af Jóni Bjarnasyni, Ólafi Grími Björnssyni og Þorleifi dúklagningameistara.

Pottur fjölmennur og rætt um stjórnmál, mat og drykk. Upplýst að Hannes Hólmsteinn væri kominn með styrk úr sjóði Bjarna Ben til þess að eltast við kommónista. Mega menn í öllum hornum fara að vara sig.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband