Hér segir frá hreint makalausu hlaupi á föstudegi

Þeir voru ekki margir hlaupararnir sem mættu til hlaups í Brottfararsal í dag, en hvílíkur hópur! Hvílík gæði! Fyrstan og fremstan meðal jafningja skal nefna hetju Hlaupasamtakanna og væntanlegan sandhlaupara, próf. dr. Ágúst Kvaran. Aðrir vinsælir og viðurkenndir hlauparar voru Karl kokkur, Magnús Júlíus, Einar blómasali, Bjarni Benz, Brynja, dr. Jóhanna, Jón Gauti, Biggi, frú Unnur (eiginkona Bigga), og svo var náttúrlega einnig ritari til þess að skrá framvindu hlaups og nótera það ef einhver missir eitthvað óheppilegt út úr sér. Unnur var að mæta í sitt fyrsta hlaup með Hlaupasamtökunum og geislaði af eftirvæntingu að fá að spretta úr spori með þessum legendarísku hlaupurum sem Birgir hefur sagt henni svo margt frá.

Nú er vorið komið. Það þýðir bara eitt: sprettir, lengingar, þéttingar, Elliðaár, sjóbað... (þetta er að vísu ekki eitt, en þið fattið hvað ég meina). Veðrið yndislegt, 10 stiga hiti, smávindur, auð jörð, en sandur á Sólrúnarbraut. Mér datt í hug að það gæti verið gott fyrir Ágúst að hlaupa í sandi og lét mig því hafa það, vegna þess að nú eru allir að hugsa um Sahara-hlaup félaga okkar og hvernig hann mun auka hróður Hlaupasamtakanna með góðri frammistöðu þar. En sandur fer annars illa með okkur og Magnús okkar þurfti að stoppa á leiðinni til þess að hreinsa úr skónum.

Nema hvað, merkilegur andskoti að nánast allir meðlimir Hlaupasamtakanna hafa lent í veikindum. Núna var það Biggi sem var að rísa upp úr flensu og 60 stiga hita. Hann virtist furðu hress miðað við hremmingarnar. En af þessari ástæðu fór hann bara rólega í hlaupi dagsins og var ekkert að derra sig.

Þetta var þéttur hópur framan af eins og venjulega, en svo dró eitthvað sundur með fólki við flugvöll, þar fóru fremstir prófessorinn, Bjarni og Jón Gauti, þá komum við blómasalinn, Magnús og Jóhanna, aðrir voru á eftir okkur. Þar eð þetta var föstudagur var stefnan sett á hefðbundið, Hi-Lux, brekku, kirkjugarð og annað eftir því. Þó svo að fólk væri illa haldið af ýmsum kvillum, við dr. Jóhanna illa sofin, Magnús með tak í læri, blómasalinn með sína yfirvigt – þá breytti það ekki því að við fórum á frábæru tempói, sem þegar upp var staðið sýndi sig vera 5:42 að jafnaði, ekki slæmt fyrir fólk sem er lasburða.

Það var erfitt að fara upp brekkuna í Öskjuhlíðinni, en það hafðist, þá höfðu blómasalinn og dr. Jóhanna yfirgefið okkur Magnús. Við náðum þeim þó á Veðurstofuhálendi og áttum samleið niður á Hlemm. Hér var sögð sagan af Súpermanni sem var á ferð um himinhvolfin, sá Köngulóarkonuna sem lá á bakinu og ákvað að taka hana á einum hundraðasta úr sekúndu. Köngulóarkonan spurði þá Ósýnilega manninn: Hvað var þetta? Ósýnilegi maðurinn sagði: Ég veit það ekki, en mig logverkjar í rassgatið!

Enginn Villi utandyra við Gallerí Fold. Við út á Sæbraut, þar komst Jóhanna á undan okkur yfir brautina, en við hinir stóðum eins og álkur á rauðu ljósi. Vatnið í fontinum kalt sem aldrei og svalaði þorsta okkar.

Við vorum bara spakir á Sæbraut en héldum áfram tempóhlaupi, enda engin ástæða til að slaka á. Athyglisverðir hlutir gerðust við ljósin hjá Útvarpshúsinu gamla, Einar og Magnús einhentu sér í tilraun til sjálfsmorðs með því að hlaupa fram fyrir bílana, ritari varaði þá við, en endurtók sömu tilraun stuttu síðar svo vart mátti milli sjá hverjir voru glæfralegir og er áhættulifnaður Þ. Gunnlaugssonar farinn að setja óþægilega sterk mörk á hlaup félaga á föstudögum. En við komumst allir lifandi frá þessari raun.

Við erum svo bundnir af gömlum hefðum að við breytum aldrei neinu. Það var Mýrargata og Ægisgata, Minningarhlaup Vilhjálms. Aðrir eru farnir að hunza Vilhjálm og fara um Tjarnarsvæðið til þess að losna við brekkuna. Svo eru aðrir sem lengja bara áfram Mýrargötu og vestur á Grandaveg um Ánanaust. Þeir fóru 12,5.

Þvílíkt hlaup! Þvílíkar hetjur! Allir voru ánægðir að hlaupi loknu, líka Biggi og Unnur. Nú er þessi árstími upp runninn að við getum verið úti á stétt og teygt og talað og andað að okkur hreinu vorloftinu, og skrafað um allt sem okkur dettur í hug.

Eðlilega var Sahara-hlaup mjög í brennidepli í potti og Ágúst þráspurður um hvort hann hefði örugglega allt með sem hann þyrfti: ferðaklósett, klósettpappír, dýnu, svefnpoka, tæki til að draga út sporðdreka, prímus til að elda leðurblökur, en Ágúst varðist fimlega og sagðist vera með allt sem hann þyrfti. Hann þyrfti að drekka 7 l af vatni á dag og elda upp úr tveimur í viðbót. Viðstöddum bent á að fylgjast með hlaupinu af vefsíðu Ágústs. Hann verður svo í sambandi við frú Ólöfu daglega gegnum tölvupóst og fáum við að fylgjast með fréttum.

Síðan tók við nördastund. Fyrst kom einhver mólekúlfyrirlestur og vangaveltur um vatnsdropa á gleraugum prófessorsins. Svo fór Birgir á flug og hóf að segja frá afrekum sínum á óperusviðinu. Ingi kom stuttu síðar og þeir náðu vel saman að segja frá kirkjukór Neskirkju og Óperukórnum og Aidu og því dæmi öllu. Á meðan hallaði Bjarni höfði og var hugsi. Ritari hugsaði sem svo: mikið erum við Bjarni menningarlausir, ekki syngjum við með kórum! Nei, þá lyftir Bjarni höfði og upplýsir viðstadda um að hann hafi sungið með karlakórnum Stefni í Mosfellshreppi í 20 ár. Flytur svo langa tölu um kvikmyndina Karlakórinn Hekla, sem mun að mestu byggð á sögum af ferli Stefnis.

Þannig lauk samveru í potti þetta kvöldið, ekkert einsdæmi, en sannarlega gefandi samvera með góðum félögum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband