Fimm athuganir

Athugun I
Sr. Ólafur Jóhannsson vakti athygli ritara á því í Morgunskýli að uppi á snaga héngi reyfið af velþekktum atgervismanni í Vesturbænum, manni sem gat sér gott orð í blómasölu hér á árum áður, en hefur snúið sér að öðrum efnum í seinni tíð. Jú, þarna héngu garmarnir, en hvorki sást tangur né tetur af innihaldinu.

Athugun II
Magnús tannlæknir kom galvaskur til hlaupa með það sérstaka erindi frá frú Sigurlínu að menn tækju eftir nýjum og glæsilegum fatnaði sem keyptur var í Bison-útláti í Kringlu (outlet): forláta gallabuxur, grá treyja (NB: ekki græn!) og nýjar og flottar nærbuxur sem Magnús veifaði framan í viðstadda. "Nú er mér ekkert að vanbúnaði að lenda í góðu slysi og í framhaldinu á Skadestuen - ég þarf ekki að skammast mín fyrir að mæta hjúkrunarliði í svona flottu garmenti."

Athugun III
Vilhjálmur Bjarnason var glaðbeittur er hann mætti til hlaups í morgun. Hann hafði fallega sögu að segja. S.l. fimmtudag hringdi síminn Brunahringingu kl. 8:32. Á hinum endanum var Ó. Þorsteinsson, þekktur velunnari útivistar og hreyfingar í Vesturbænum, og hafði þær fréttir að færa að kl. 7:30 þá um morguninn hefði maður fengið hægt andlát á Landspítala. Hringt var í Ó. Þorsteinsson kl. 8:30 og honum færð tíðindin. Reuter sefur aldrei. Ólafur lét það verða sitt fyrsta verk að hringja beint í V. Bjarnason og færa honum fréttirnar. Nú skiptist í tvennt hver viðbrögð voru: annars vegar segir Vilhjálmur að hann hafi brugðist við af hægð og sagt: Jæja, Ólafur minn, þú hefur einkennilegan húmor. Á hinn bóginn mun Ó. Þorsteinssyni hafa virst Vilhjálmur bregðast æfur við. Var rifjuð upp nafnbót sem Foringi Hvítu Mannanna gaf dr. B. Símonarsyni fyrir margt löngu: B. Telefónsson. Var það til þess að endurgjalda prófessornum fyrir nafnbót sem hann gaf téðum foringja og hangir enn sem fastast við  hann. Var það niðurstaða Vilhjálms að þeir Ólafar, og jafnvel fleiri, hefðu svipaðan húmor.

Athugun IV
Upplýst var i Esjugöngu að Helmut og dr. Jóhanna hefðu fyrr á þessum degi hlaupið 25 km og 28 km til undirbúnings Berlín. Tóku svo Esjuna í beinu framhaldi. Vel af sér vikið. Ennfremur kom fram að Birgir hefði laumað sér í hlaup með sunnudagshlaupurum og hlýtur að teljast einkar lúalegt, píska sér áfram gagngert til þess að hala sig upp töfluna. Hver þarf óvini þegar hann á slíka vini?

Athugun V
Fyrrnefndur atgervismaður úr stétt blómasala sendi út skeyti á eter um að hann hefði á þessum degi hlaupið einn, og hlaupið 27 km. Hlaupið var í kyrrþey.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband