Gelið er málið

Orkugelið, sumsé, meira um það seinna. Auglýst hlaup frá Vesturbæjarlaug á laugardegi kl. 9:00. Mætt: ritari, Margrét, Rúnar, Benedikt, Birgir, Hjálmar og Ósk. Fyrirheit um langt, á bilinu 27-32 km. Ritari gerði tillögu um leið og féll hún í góðan jarðveg, sama leið  og Ágúst plataði okkur að fara hér um daginn. En þegar þjálfari hóf upp raust sína og gaf út leiðarlýsingu var ljóst að áætlun ritara var sett snyrtilega á hilluna og önnur plön lögð. Taka fyrst hring á Nesi, ca. 10 km, koma svo aftur til Laugar og sækja eitthvert fólk sem treystir sér ekki til þess að mæta til hlaups á hefðbundnum fótaferðatíma í Vesturbænum.

Þrátt fyrir þetta var hugur í mönnum og við Birgir tókum strax forystuna og héldum uppi góðum hraða í upphafi hlaups, líklega 5 mín. tempói. Smásaman fór þó fólk sem við þekkjum að streyma fram úr okkur venjulegum, dauðlegum hlaupurum og þannig var það það sem eftir lifði hlaups. Þau Margrét, Rúnar og Benedikt fóru sínar eigin leiðir og segir fátt af þeirra högum á blöðum þessum. Þau fóru vel á undan okkur og komu við í Laug að sækja eftirlegukindur. Ég, Biggi, Ósk og Hjálmar fórum upp hjá Eiðistorgi og var sú ráðstöfun snilldarbragð þess er hér slær takka, en af djúpu sálfræðilegu innsæi sá ég að það myndi virka öndvert að fara um Grandaveg í hlaupi sem var rétt að hefjast, en þar eru menn alla jafna að ljúka hlaupi. Hætt var við að e-m dytti í hug að láta staðar numið. Til þess að forðast þá stöðu mála kom óvænt breyting og það var farið um Nesveg tilbaka. Hjálmar hætti eftir 10 km enda nýbúinn að hlaupa 28 km - en við hin héldum ótrauð áfram um Ægisíðu. En ég verð að viðurkenna að það var mótdrægt að vera á hefðbundnum upphafsreit hafandi lagt að baki 10 km og eiga 22 eftir - mér varð hugsað: Er ég að nenna þessu? Hvað um það, áfram var haldið, en ég ákvað: EKKI AFTUR! Þ.e.a.s. ekki hringavitleysu þegar menn eru að fara langt.

Við vorum vel birg af drykkjum, og ég var með orkugel aukreitis. Veður var gott til hlaupa, lítill vindur, 10 stiga hiti og einhver rigning, sem átti eftir að ágerast er leið á hlaupið. Í Nauthólsvík var staldrað við og bætt vatni á brúsa. Þar fékk ég mér fyrst orkugel og vatn með. Um þetta leyti komu þau hin og náðu okkur. Margrét hafði áhyggjur af að ritara væri kalt á fótunum, en hann var í stuttbuxum. Svo leit hún á fætur ritara (sem sumir hafa sagt að í sjálfu sér væru staðfesting þess að Guð er til) og sagði: Nei, þetta er í lagi, hann er svo vel hærður... Það er vissulega óvenjulegt að fá svona komment frá þjálfurum, og einhver myndi kalla þetta einelti en þjálfarinn er greinilega orðin illa smituð af anda Hlaupasamtakanna og farin að dreifa kringum sig kvikyndislegum athugasemdum um hlaupara af litlu tilefni.

Með þeim í för var einn nýr hlaupari af óþekktum uppruna og óskilgreindri stöðu, ekki fékkst gefið upp nafn né heldur annað sem máli skipti. Það fauk í Birgi sem fannst eftirtekjan rýr af heilum 10 km hring: Er þetta hlauparinn sem nennti ekki að vakna á sama tíma og aðrir? Óþekkti hlauparinn brást furðu lostinn við þessum orðum, greinilega ekki vanur að fá svona viðtökur. Þau héldu áfram, og við svo á eftir.

Við Ósk og Birgir héldum í Fossvoginn og alla leið að Víkingsvelli, þaðan til hægri upp í Kópavog og hjá Goldfinger. Yfir í Breiðholtið og stöðvuðum næst á benzínstöð Olís við Álfabakka. Þar bættum við á okkur vatni, fylltum brúsa og ég fékk mér annað orkuskot af geli. Teygt lítillega og haldið svo áfram upp að Stíbblu. Ég hélt að ég myndi verða slappari og slappari eftir því sem á hlaupið leið, en sú varð ekki reyndin. Einhvern veginn hélt ég fullri orku og þreki og fann eiginlega ekki til þreytu. Eftirá þakka ég gelinu fyrir þetta, þetta verður greinilega málið í Berlín.

Fórum niður hjá Rafstöðvarheimilinu og yfir Elliðaár og svo aftur inn hjá Víkingsheimili og inn í Fossvoginn. Birgir var með Garmin, sem hann slökkti samvizkusamlega á þegar við stönzuðum, en gleymdi jafnan að kveikja á aftur. Ósk var með Garmin, sem kveikt var á allan tímann, líka þegar við vorum kjur, en mældi vegalengdir í mílum. Af þeirri ástæðu nennti maður ekki að vera að velta vegalengdum mikið fyrir sér í dag, einna helzt að spurt væri hvað við hefðum hlaupið lengi, því fyrirmæli þjálfara voru þau að ekki mætti hlaupa lengur en í 3 klst.

Enn jókst furða mín er komið var í Fossvoginn, þessi hlaupari sem jafnan var farinn að ganga um þetta leyti í svo löngu hlaupi, neitaði að hætta og hélt áfram á góðu stími eins og maskína. Það fór að rigna og rigndi alveg óskaplega, maður blotnaði rækilega í gegn og þurfti öðru hverju að vinda hanzka. Vitanlega var margt spjallað, m.a. kom langt innlegg frá Bigga þar sem hann greindi í smáatriðum frá nýlegu hlaupi sem hann varð að gera hlé á til þess að sinna öðrum þörfum, og sýnir í hnotskurn vanda hins einmana hlaupara. Einnig rifjaðar upp senur úr Klovn, sem bæði Biggi og ritari halda mikið upp á. Klassískur danskur húmor sem þarf að venjast. Sumir venjast honum líklega aldrei.

Jújú, það skal viðurkennt að sjóbað heillaði, en við ákváðum að vera skynsamir. Við vorum báðir slæmir í mjöðmum og sjóbað kælir svo mikið niður. Ég reyndi þetta um daginn þegar ég hljóp með Ágústi, Bjössa og líklega Helmut, þá fórum við í sjóinn eftir langt og ég kólnaði svo mikið að það tók mig alla leið að Hofsvallagötu að hitna þannig að ég væri í hlaupatæku formi. Svo við slepptum sjóbaði, þótt sjóböð séu mjög að færast í aukana þessi missirin, bæði Ósk og Hjálmar stunda sjóböð af kappi og þykja þau gera sér gott.

Ekki var slegið af neins staðar á leiðinni og mætti segja mér að meðaltempó hafi verið 5:30, alveg þokkalegt. Komum til Laugar eftir ca. 3:15 klst. hlaup og 20 mílur að baki, sem mér reiknast til að séu 32 km - það sem stefnt var að. Það hvarflaði að mér hvort aðrir Berlínarfarar væru alveg í lagi að láta svona tækifæri ganga sér úr greipum, hvað er fólk að hugsa? Hvar er undirbúningurinn? Einkum hefur maður áhyggjur af ónefndum blómasala sem er bara á fiskveiðum úti á landi, vel birgur af mat og drykk. Hvernig fer þetta? Við gripum í tómt við Laug, þar voru engir af þeim hlaupurum sem við lögðum upp með fyrr um daginn og er ekki vitað um afdrif þeirra. Legið góða stund í potti og mál rædd vítt og breitt. Ákveðið að hvíla til mánudags. Næsta vika er vikan þegar menn toppa, og lengsta hlaupið er eftir, verður þreytt n.k. laugardag, 35 km. Guð sé oss næstur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband