23.8.2008 | 18:13
Hlaupið hálft í Reykjavíkurmaraþoni 23. ágúst 2008.
Hlaupasamtökin voru vel representeruð í Reykjavíkurmaraþoni hinn 23. ágúst 2008 og trúi ég að fljótlega muni liggja fyrir listi með árangri flestra hlaupara, nema þar sem hlaupatíminn kann að vera trúnaðarmál.
En safnast venju samkvæmt í Útiklefa Vesturbæjarlaugar þegar laug opnaði, þessi mætt: ritari, Þorvaldur, blómasali, Helmut og dr. Jóhanna. Gerðum stuttan stanz, en héldum fljótlega til móts við félaga okkar við Listasafn Íslands, þar sem til stóð að hita upp og teygja með jógaæfingum undir leiðsögn Birgis. Er þangað var komið beið okkar föngulegur hópur hlaupaefna: báðir þjálfarar, Birgir, Björn, Kári, Sigurður Ingvars., Ósk, Hjálmar Sv., Þorbjörg og man ég að segja að við hittum síðar Vilhjálm, Flosa, Rúnu og Friðrik, og dr. Friðrik, auk þess sem Formaður Vor til Lífstíðar hljóp 10 km þennan dag, sem og Hjörleifur. Síðastan en ekki síztan skal nefna fél. Gísla Ragnarsson sem hljóp heilt maraþon í dag. Ég biðst fyrirfram velvirðingar á því ef ég gleymi einhverjum.
Jógaæfingar voru snaggaralegar, og athygli vakti að blómasalinn heimtaði meira og meira. Jógi sagði: Nei, þetta dugir. Meira, meira!!! hrópaði blómasalinn. Hvað var í gangi? spurðu menn furðu lostnir. Svo rann upp fyrir viðstöddum að hér var í boði ókeypis jógaæfing og miklir fjármunir að glatast ef ekki væri haldið áfram.
Veður allgott fyrir hlaup, 13 stiga hiti, einhver vindur og regn hékk í loftinu. Þúsundir saman komnar í Lækjargötu við upphaf hlaups og stemmning mikil eins og venjulega. Hlaupið var ræst kl. 8:40 af utanríkisráðherra og um leið og skotið reið af hljómaði lag Stones, Start me up virkaði eins og vítamínsprauta á þennan hlaupara. Passaði mig á að fara ekki of geyst af stað en það eru mistök sem ég hef gert í mörgum undangengnum maraþonum. Það gerði að vísu minna til í þetta skiptið þar eð stefnan var aðeins sett á hálft maraþon. Ég var stoltur að fara skynsamlega af stað, en sá að sumir félaga minna fóru allhratt af stað, m.a. Birgir, blómasalinn og Björn. Ég hugsaði sem svo að þeir myndu sprengja sig á þessu tempói og ég tína þá upp á leið minni.
Þetta hlaup var að því leyti til frábrugðið fyrri hlaupum að ég hafði ekki félagsskap félaga í Hlaupasamtökunum, en þó var fjöldinn slíkur að maður hljóp alltaf í hópi annarra hlaupara, það mynduðust aldrei göt í keðjunni. Hefðbundið um Suðurgötu, Lynghaga, Ægisíðu og út á Nes. Ég hafði smááhyggjur af mótvindi á leiðinni inn úr, en þegar til átti að taka var hann ekkert til þess að gera rellu út af. Mér leið bara nokkuð vel alla leiðina, var aldrei þreyttur eða búinn, þrátt fyrir meiðsli eftir mánudagsæfingu og svefnlitla nótt, sem er aldrei gott hlaupurum. Ég fór að hugsa á Sæbrautinni: Æ, bráðum er þessi æfing búin! Það er leiðinlegt!
Niður hjá Eimskipum og þar í gegn. Það var góð tilfinning þegar upp var komið á Sæbraut að nýju að ekki var farið lengra í austur, heldur stefna strax sett á miðbæinn og maður vissi að það voru aðeins örfáir kílómetrar eftir. Svo rúllaði þetta tíðindalaust áfram, nema hvað ég fann enga aðra félaga á leið minni en Bjarna og Rúnu, virtist ekki ætla að draga aðra uppi. Sú varð og raunin, eins og sjá má af hlaupatímum, að menn voru að ljúka hlaupi á tímanum frá 1:26 upp í 1:44 meðan ég kom sjálfur á tímanum 1:51, hafði þó sett markið á 1:50 og helzt undir. Var þó allsáttur þrátt fyrir allt.
Fann fyrir félaga mína í Lækjargötu, en hraðaði mér til Laugar. Tók þá eftir að ég hafði gleymt að láta klippa flöguna af skó mínum. Hafði orð á þessu við félaga minn. Sá setti upp spurn í andliti: hvaða helv... flögu? Nú, flöguna sem ákvarðar þér tímann í hlaupinu. Flögu, sagði hann. Enginn sagði mér frá neinni helv... flögu! Nú varð okkur ljóst að hér hafði hlaupari lagt að baki 21,1 km á mjög frambærilegum tíma (1:45) og fengi hann aldrei skráðan, hafandi auk þess greitt hátt þátttökugjald. Og hlaupið hlaup að auki sem ekki yrði tekið aftur.
Þessi epísóða vakti athygli í potti velmönnuðum. Þar var sunginn afmælissöngur Helmut hálfsextugum. Menn höfðu uppi heit um að aka rakleiðis til ríkisverzlunar nokkurrar sem sérhæfir sig í fljótandi gæðavöru. Ýmislegar fyrirætlanir um hvernig menn hugðust verja kveldinu og nóttinni í menningunni.
Velheppnuðu Reykjavíkurmaraþoni lokið - en það er jú aðeins liður í æfingaáætlun fyrir Berlín. Við tekur hefðbundin æfing á mánudag, en ætlan mín er rétt. Þar um kemur instrúx frá þjálfurum. Í gvuðs friði, ritari.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 18:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.