18.8.2008 | 22:47
Súkkulaðifíkn
20 manna harðskeyttur hópur mættur til hlaups á mánudegi. Allir helztu hlauparar Hlaupasamtakanna mættir, auk þjálfara. Rúnar þjálfari mjög leyndardómsfullur með kraga eins og settir eru á hunda sem búið er að meðhöndla á dýraspítala. (Þegar ég segir "með kraga" - þá á ég við að hann hélt á krögunum í hendinni, hafði þá ekki um hálsinn.) Hann gaf ekkert upp annað en að farið yrði um garða og út að Skítastöð. Þar yrðu svo gefin nánari fyrirmæli. Hver þekkir leiðina um Garða? enginn gaf sig fram. Þekkir enginn leiðina? - nú var bent á Flosa, bróður ritara. Flosi þekkir leiðina, sagði einhver. Já, bara fara hægt, engin læti, halda hópinn. Svo mörg voru þau orð.
Aldrei þessu vant var farið rólega, m.a.s. þekktir hraðafantar eins og Benedikt og Eiríkur voru bara rólegir. Á leiðinni var rætt um júlílöberinn og ekki laust við að téður hlaupari væri sperrtur eins og hani á fjóshaug. Derraði sig einhver ósköp og virtist hafa endurheimt löngunina til hlaupa, eins og sá sem hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Við Skítastöð voru lagðar línur: 200 m á spretti, 100 m hvíldarhlaup, aftur 200 m, og endurtekningar þannig 10 sinnum. Hvaða tilgangi þetta átti að þjóna var okkur hulið, en treystum því að þetta væri gott fyrir hálfmaraþon n.k. laugardag.
Blómasalanum var mikið í mun að sanna að hann ætti nýlega heimta viðurkenningu verðskuldaða og tók vel á því. Tiplið fræga endurómaði um allan Skerjafjörðinn. Aðrir góðir hlauparar voru ekki síðri og draup sviti af hverju andliti eftir að við höfðum tekið sprettina. Svo mátti velja: halda áfram kvalræðinu eða gera eitthvað annað. Við Bjarni og blómasalinn vorum skynsamir og fórum fetið út í Nauthólsvík, meðan aðrir féllust á að láta kvelja sig áfram, þ.á m. Birgir í illaþefjandi hlaupafatnaði og er ekki til yndisauka fyrir félaga hans. Veit ekki hvaða tengsl voru milli pottsins sem geymdi fiskisúpuna og óhreinlætis, en hér er þörf á góðri úrlausn úrræðagóðrar eiginkonu.
Við sem sagt áfram og upp Hi-Lux og þá tók hasarinn við. Sprett úr spori upp brekkuna og í reynd alla leið upp að Perlu. Telst sem tveir þéttingar. Niður stokk og farið um hjá Gvuðsmönnum og aftur þétt á Hringbraut. Langur þéttingur alla leið út að Sóleyjargötu. Hér fór blómasalinn í forystu og sýndi hvað í honum býr. Menn veltu fyrir sér hvað vakið hefði hlauparann í þessum lata manni. Var það tilnefning Rúnu? Eitthvað annað? Alla vega var maðurinn óstöðvandi í kvöld, og greinilegt að stefnir í harða keppni milli ritara og blómasala í hálfu á laugardaginn, fylgist með. Bræður munu berjazk, ok at bönum verðazk!
Á Brottfararplani mættust félagar úr ýmsum áttum og var teygt, ekki vanþörf þegar stefnir í átök. Hér small sprengjan: einhver sagði við Helmut ...og Þjóðverjar bara farnir heim! Ritari bjóst við því að Helmut, þessi prúði drengur, myndi bregðast við með tilfinningaþrungnum hætti, en hann sagði bara: Já, þetta var allt Íslendingum að kenna. Í potti var sögð svo átakanleg saga að hún verður ekki endurflutt hér í pistli, enda er gætt nærveru sálar í pistlum ritara. Þá tók Björn yfir pottinn og hóf mikinn ádíens, sögur úr ýmsum áttum af þekktum persónum.
Nánast hvíld n.k. miðvikudag, mesta lagi 12 km.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.