Hlaupari snýr aftur

Hvöss orð hafa gengið manna á milli á eternum. Heitstrengingar og hótanir, gælur og glefsur, köpuryrði og hæðni. Ritari mættur á ný til hlaupa eftir fjarveru og hlaupaleysi. Aðrir mættir: Björn kokkur, Birgir jógi og Rúnar þjálfari. Hlýtt í veðri, en stíf austanátt. Fréttir af miðvikudagshlaupi voru helztar þær að einhverjir hlupu ekki út af einhverjum fóbboltaleik í sjónvarpinu. Þeir sem hlupu kvörtuðu yfir illum þef sem lagði af hlaupafatnaði ónefnds blómasala. Þykir því enn og aftur ástæða til þess að brýna fyrir hlaupurum að tryggja að fatnaður sé þveginn að loknu hverju hlaupi.

Lofað hafði verið löngu hlaupi, en þegar til átti að taka virtust menn eitthvað tímabundnir, og ég skildi það svo að það væru brýn störf að mikilvægum mannúðarmálum sem hindruðu löng hlaup. Hið rétta kom í ljós í lok hlaups. Hann var hvass á Ægisíðu og menn fengu storminn í fangið. En létu það ekki á sig fá og tóku á honum stóra sínum. Óvenjumikið af hjólreiðafólki á stígnum, sumir fóru mjög hratt og óvarlega og gera sér greinilega ekki ljóst hve hættan er mikil að slys verði þegar óvitar hreyfa sig með ófyrirsjáanlegum hætti (og hér er ég ekki að vísa til hlaupara í ónefndum Hlaupasamtökum sem sumum kynni að virðast hegða sér óskynsamlega á hlaupum).

Þrátt fyrir að vart heyrðist mannsins mál í storminum heyrðist í Birgi alla leið. Loud and clear. Ritari var furðu sprækur eftir langa hvíld frá hlaupum, þrátt fyrir veikindi og hvers kyns óreglu. Hinir voru einnig allgóðir. Eftir því var tekið að búið er að skrúfa frá vatni á fontum á leiðinni og ber að fagna því.

Við fórum upp Flanir (grasi gróin hæð austur af Nauthólsvík) - þar er lúpínan að taka við sér og tímabært að ónefndir lúpínuóvinir taki til óspilltra málanna. Ritari mátti þola ýmsar glósur á leiðinni, að hann væri feitur og þungur, liti út eins og dráttarklár, Sörli. Birgir kvaðst hlaupa í Sörlaskjóli og fyndi ekki fyrir vindi. Farið upp Suðurhlíðar og ekki slegið af. Hér var í raun gefið í og tempóið keyrt upp. Áfram hjá Perlu, niður Stokkinn og hjá Gvuðsmönnum. Keyrt á fullu stími vestur úr. Björn sagði okkur af kynnum sínum af Gústafi Agnarssyni, lyftingamanni, og voru þær allar í klassiskum anda Íslendingasagna. Hetjudáðir og hreystibrögð.

Þeir Björn og Birgir voru stutt í potti, lá einhver ósköp á. Þegar ég gekk á þá viðurkenndu þeir að ætlunin væri að horfa á Júróvisjón. Ég hváði og lýsti yfir furðu minni á þessu kúltúrleysi. Svo rann það upp fyrir mér að meginástæða þess að ekki fleiri hlauparar voru mættir í dag til hlaupa væri þessi: menn vildu ekki missa af Júróvisjón. Fóbbolti í gær, Júróvisjón í dag! Hvar er karlmannslundin? Hvert stefna þessi Samtök? Ég bara spyr. Skyldu menn sniðganga hlaup á morgun til þess að missa ekki af útsölu á fótlagaskóm? Nú þurfa menn að fara að taka sér taki, framundan er maraþon. Nú þarf að fara að hlaupa af alvöru og eftir áætlun. Hver ætlar að gera áætlun? Ritari er mættur til starfa.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband