22.5.2008 | 20:06
Mönnum verður á og mismæla sig
Föstudagurinn 16. maí verður lengi í minnum hafður. Afar vænn hópur góðhlaupara samankominn á hefðbundnum slóðum, flestir með gervihnattasamband, léttir í skrefinu frá upphafi hlaups til enda. Eins og oft áður voru sumir skrafhreifir fram úr hófi, eða svo lengi þeim entist öndun til, en dró þó úr mesta masinu þegar komið var út af Klambratúni. En fyrir þá sem ekki vita, er nafnið dregið af bænum Klömbrum í Vestur Húnavatnssýslu. En klambra er sérstök lögun á hnaus.
Það verður nú að segjast ýmsum til hróss, að ég hljóp ekki einn allan tímann, þó lengst af. Tónlistarhúsið teygir nú anga sína í átt Seðlabanka og verður að sýna sérstaka varfærni þegar klöngrast er yfir Skúlagötuna. Hraði bifreiða er þar all nokkur og eru menn brýndir til að líta til allra átta áður en farið er yfir. Á þetta sérstaklega við þá sem gjarnir eru á að hlaupa út undan sér.
Þegar til laugu kom, tóku menn eftir því að það vantaði ónefndan blómasala og var sem honum hefði hreinlega ekki enst orka til að ljúka hlaupi. Það var ekki fyrr en menn höfðu skrafað drjúga stund í potti að hann skreiddist til okkar. Lagði af honum angan ljúfa; hann sagðist hafa fengið nokkur hvít og rauð á leiðinni. Þögn sló á íþróttamennina í potti, en blómasali var bæði glaðr og reifr.
Á einhvern undarlegan, óútskýrðan hátt, hafði hann lagt langa leið á sína lykkju og komið við á Þjóðminjasafninu, 600 metrum austan við Hofsvallagötu, og verið þar við opnun sýningar Ragnheiðar kokksins. Þar brynnti hann sér í fyrsta sinnið. Að því loknu hélt hann að háskólabyggingu, kom við í teiti nema í viðskiptafræði og var einnig boðin mungát heit; að lokum og í hið þriðja sinnið hóf hann bikar á loft í veislu hagfræðinema, eilítið sunnar í sömu byggingu. Verður þetta að teljast met í upphafningu andans og það í sveittum hlaupagírnum. Menn voru furðu lostnir, en bros blómasalan hljóp í vöxt eftir því sem á frásögnina leið. Var nú stutt í að menn fóru að tala um mat. Við þá umræðu dvaldi vararitari ekki.
Mánudagurinn 19. maí
Enn og aftur var létt í hlaupverjum þennan fallega mánudag. Hægur að austan og sæmilega mætt. Sem fyrr átti að taka langan þétting. Reyndar verður að segjast eins og er, að mánudagsþéttingar eru orðnir það langir, að styttri hluti leiðarinnar er á rólega tempóinu. Út að dælu og lens vestur á Lindarbraut, vel á fimmta kílómetra. Einn í hópnum fremstur, en þjálfari ekki víðs fjarri. Þóttust menn vart í annan tíma hafa tekið eins feiknarlangan sprett. Og í raun öllum til mikils sóma, sem á annað borð mættu.
Höfðu sumir á orði þegar þarna var komið hlaups, að andinn í hópnum væri venju fremur vinsamlegur, hverju sem sætti. Er aðalritari í Svíþjóð, spurði lærður maður í hópnum. Umlaði í lýðnum miður glöðum, en engin svör.
Skildu nú leiðir með þeim sem koma til hlaupa, og hinna sem koma til að tala. Fórum við próf. Fróði út Nesið og smöluðum rúmum 16 kílómetrum inn á mælinn. Reyndar vil ég geta eins, vegna þess hversu feikn mér var brugðið; próf. Fróða lagði til að við styttum, færum ekki fyrir völlinn. Ég þvertók fyrir þetta og próf. F. sagðist hafa mismælt sig, sagðist hafa spurt; er þetta stytta? Við tóku nokkrar gargandi kríur og málið leystist af sjálfu sér. Var síðan hlaupið á fullu gasi, fyrir völl, norður og austur úr til laugar. Vararitari.
Flokkur: Almennt skraf | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.