11.5.2008 | 15:45
Í rangri messu...
Ánægjulegt er að geta sagt frá því að það var hlaupið á þessum Hvítasunnudagsmorgni frá Vesturbæjarlaug. Sem fyrr voru það merkisberar útivistar og hollrar hreyfingar í Vesturbæ Lýðveldisins sem stóðu fyrir viðburðinum, félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, þeir Ól. Þorsteinsson, Þorvaldur, Bjarni, Birgir, Einar blómasali og ritarinn. Veður þolanlegt, blautt og einhver vindur.
Ólafur Þorsteinsson sagði frá mikilli veizlu sem hann sótti s.l. föstudag og haldin til heiðurs Geðlækni Lýðveldisins sextugum. Mikið var um dýrðir og margt þjóðþekktra andlita. Frekari lýsingar á veizluhöldum minntu á efnistökin í Heljarslóðarorrustu.
Ritari allstirður eftir hlaup gærdagsins, en lét sig hafa það að staulast á eftir þeim hinum, sem voru frískir eins og venjulega. Farið hefðbundið um Sólrúnarvelli og austurúr. Mikið var notalegt að geta stoppað í Nauthólsvík og gengið smáspöl. Ólafur Þorsteinsson lýsti yfir því að flugvöllurinn skyldi fluttur, Birgir tók undir með honum. Aðrir voru þessu andvígir og spratt upp hávaðadeila þarna á stígnum um hvort flugvöllurinn fengi að vera eða hvort hann yrði að víkja. Þetta stefndi í vandræði þegar einhver tók upp á að hlaupa af stað og hinir eltu, misklíð gleymdist og menn voru þess í stað sammála um að seint gengi að byggja Nauthól, hinn nýja skemmtistað við ströndina.
Komið í kirkjugarðinn. Þar er hægt að skrúfa frá vatni og drekka. Á hinni hefðbundnu hlaupaleið okkar á sunnudögum eru tveir vatnsfontar - en ekki enn búið að skrúfa frá vatni þótt langt sé liðið á sumar. Þetta er hneyksli og tímabært að Jakob Frímann grípi til sinna ráða sem einhver helzti framfaramaður miðborgarinnar og láti skrúfa frá vatninu. Gengið í garðinum og menn anda að sér angan vorsins og horfa á gróður fara grænkandi.
Haldið áfram og farið hefðbundið um Veðurstofuhálendið, Hlíðar, Hlemm og niður á Sæbraut. Ekki bar neitt til tíðinda á þessum kafla og héldu menn friðinn að kalla. Er kemur að tónlistarhúsi þarf að fara yfir Sæbrautina og hjá Útvarpshúsinu gamla og Seðlabanka vegna framkvæmda við Tónlistarhús. Við gengum langar leiðir og ræddum þjóðþrifamálefni.
Það sást til Flosa í laug og flugu einhverjar glósur um hvaða messu hann hefði sótt á þessum degi, alla vega ekki þá sem Ó. Þorsteinsson stýrði með sínum takmörkuðu réttindum í Nessókn. Mættir dánumenn í potti, dr. Baldur og dr. Einar Gunnar - og fluttar helztu fréttir.
Næst hlaupið á morgun, annan í hvítasunnu, kl. 10:10.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.