Þjáning, og meiri þjáning

Mér er minnisstætt þar sem ég stóð í Brottfararsal og beið eftir að síðustu menn skiluðu sér til hlaups. Upp úr kjallara Laugar Vorrar kemur próf. Fróði með slíkan þjáningarsvip í andliti að manni datt einna helzt í hug að hann langaði alls ekki að þreyta hlaup á þessum degi. En það lifnaði yfir honum jafnskjótt og hann renndi augum yfir það einvalalið sem komið var saman til þess að hlaupa á þessum ágæta degi. Voru það hátt í tveir tugir hlaupara, svo margir að seinlegt væri að telja alla upp, en þessara skal þó getið: dr. Friðrik, Kalli kokkur, Sigurður Ingvarsson, og nýr hlaupari, Elín Soffía, prófessor í lyfjafræði við Melakleppsakademíuna. Margir óskuðu Kalla til hamingju með hlaupaafrek sonarins, Kára Steins, sem fór 10000 m hlaup á undir 30 mín. Hlauparar mændu á þjálfarann og biðu eftir leiðbeiningum um hlaup dagsins, minntu einna helzt á fermingarbörn er vænta leiðsagnar sóknarprestsins. Loks var gefin út skipun um hlaup: hefðbundið um Hagamel, Birkimel, Suðurgötu, um Skerjafjörð að dælustöð og svo á tempói þaðan og út að Hagkaupum. Eftir það mátti fólk velja hvort það snöri við eða héldi áfram.

Haldið af stað, það var vakur flokkur sem skokkaði af stað fjaðurmögnuðum hreyfingum út á Hofsvallagötu, maður fann til stolts að hlaupa innan um þennan fríðleiksflokk. Þjálfarinn hafði brýnt fyrir okkur að fara hægt til að byrja með, en hver tekur mark á svoleiðis löguðu? Ekki Benni, Eiríkur, Ágúst eða S. Ingvarsson. Nýkrýndur marzlöber, Björn kokkur, var þéttur enda sagður hafa tekið miklum framförum í hlaupum og mikill geðprýðismaður. (Þegar ég segi "þéttur", á ég auðvitað við einbeittur, eða eitthvað í þá veru.)

Tekið á því á Ægisíðu og alla leið út í Skjól, en ekki látið staðar numið þar, heldur haldið áfram á Nes. Ég lenti í slagtogi við dr. Jóhönnu og Helmut, það tók á að spretta úr spori á Ægisíðunni, en við vorum ákveðin í að halda áfram. Við Helmut tókum 14,1 km út á Nes og hjá Gróttu, líkt og einhverjir fleiri gerðu, aðrir fóru styttra. Það var erfitt að hlaupa þetta, og tekið út með þjáningu. Manni virtist aðrir hafa þjáðst álíka og við. Á Plani stóð fólk og teygði, ritari bar öll merki þess að hafa tekið vel á því á hlaupi - hann mátti vinda fatnað sinn, og brá þjálfara að sjá hversu hún hafði pískað mannskapinn áfram í kvöld, það örlaði á einhverju í augnkrókum sem virtist mega túlka sem samkennd með þjáningu annarra, þó þarf það ekki að vera, gæti hafa verið missýning.

Góður pottur á eftir. Næst er stefnt á enn lengra, Goldfinger og Stíbblu, en bara hægt. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband