Hlaupari gleymir skóm

Búið var að gefa út fagra veðurlýsingu fyrir hlaup dagsins og má til sanns vegar færa að menn máttu una vel við sitt er mætt var til Laugar upp úr klukkan fimm í dag. Hægur andvari og frost, en annars prýðisgott hlaupaveður. Venju samkvæmt var fjöldi hlaupara mættur til að spretta úr spori og mátti þar kenna Helmut, Ágúst, Þorvald, Bjössa, Benedikt, dr. Sigurð Ingvarsson, dr. Jóhönnu, Bjarna, Þorbjörgu, Unu, Margréti þjálfara, Kára, ritara og sjálfan Ó. Þorsteinsson, sem lét svo lítið að mæta á óhefðbundnum tíma, uppfullur af sögum af Túndru. Nú brá svo við að ritari hafði gleymt hlaupaskóm, sem gerist ekki oft, en hendir stundum ónefnda blómasala - en þar eð ég bý aðeins lengra frá Laugu en blómasalinn voru góð ráð dýr. Ég sneri mér til Þorvaldar sem brást ljúfmannlega við erindi mínu og sótti aldeilis forláta hlaupaskó út í bíl sinn - sem smellpössuðu þar að auki. Deginum bjargað!

Þjálfarinn hélt ræðu og lagði línurnar, sem hljómuðu kunnuglega: út að Kringlumýrarbraut og þétting eftir dælustöðina. Upp Suðurhlíðarnar og þannig tilbaka. Ég setti mér það eitt markmið að komast aumingja og skila mér heilu og höldnu til Laugar, án þess að skaða ökklann meira en orðið var. Hafði mér til halds og trausts þá Ó. Þorsteinsson og Bjarna sem  fóru sér hægt. Margt var skrafað enda hátíðir framundan og mættum við mörgum mætum Reykvíkingnum, komu ný bandalög okkur í opna skjöldu, ekki meira um það. Hér fór vindurinn aðeins að bíta okkur í andlitin og kom fyrir lítið að vera með balaklövur, en líklega hafa þær bjargað því sem bjargað varð.

Þegar til átti að taka treysti ég mér ágætlega til að halda áfram hlaupi og fara Suðurhlíðar, þótt oft á tíðum væri þetta eins og hlaupa með grjót í belgnum. Við Þorvaldur tókum strikið áfram austur Flanir og út að Suðurhlíðum, en ég veit ekki um afdrif annarra, hef suma grunaða um að hafa stytt um Hlíðarfót. Nema hvað við skeiðuðum þarna áfram, en þegar brekkan fór að taka í hægði ég ferðina og leyfði Þorvaldi að halda áfram. Ég þurfti að hvíla mig inn á milli, enda ekki búinn að hlaupa í tvær vikur, feitur og þungur eftir hóglífi undanfarinna vikna. En komst loks upp að Perlu eftir mikinn barning og var ánægður með það - hitti Þorvald þar aftur, en svo var hann horfinn og sást ekki aftur fyrr en að Laugu. Sjálfur tölti ég þetta í hægðum mínum, en var er hér var komið farinn að finna heldur betur fyrir frostinu á andliti mér.

Ég komst nokkuð ánægður tilbaka og hitti félaga mína, sem allir voru ánægðir eftir velheppnað hlaup í yndislegu veðri þótt kalt væri. Það var dokað við góða stund í potti og ýmsir fundu sig knúna til þess að tjá sig um ýmis bernskubrek, ræktanir ýmiss konar, tilraunir með sprengiefni og fleira uppbyggilegt. Það ríkti einskær gleði og ánægja í hjörtum okkar á þessu góða kvöldi, enda fátt sem jafnast á við það að gleðjast með góðum eftir að hafa tekið vel á því á góðum degi - varð mér hugsað til blómasala og tannlækna sem misstu af þessari miklu hátíð í dag og eru trúlega með böggum hildar yfir.

Næst: miðvikudagur, 69, hratt. Hver þorir? Aðalritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband