Ágúst og ég, ég og Ágúst - við Ágúst

Jú, þannig var mál með vexti að í dag var úrvalshópur mættur til Hlaupa í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, og voru þó hvörgi nærri ýmsir afbragðshlauparar svo sem Benedikt, Eiríkur, Magnús, Birgir, Vilhjálmur eða Ó. Þorsteinsson, að maður nefni ekki úrvalsmenn eins og S. Ingvarsson, Sjúl og Kalla. Nei, hér voru á ferð eingöngu glaðbeittir gleðimenn og -konur. Já! Konur! Í dag hlupu konur með Samtökunum. Að vísu skal þess getið að Nesið á tvær þeirra, en hinar tvær eigum við: dr. Jóhönnu og frú Ó. Þorsteinsdóttur úr Lækjarhjalla. Hinar voru vitanlega Brynja og Rúna af Nesi. Auk þess hlupu með okkur þeir Denni, sem loks fékk sinn Föstudag, og Friðbjörn, formaður TKS. Ýmislegar umræður urðu í Brottfararsal og skiptust menn á sjúkdómasögum. M.a. lýsti ritari yfir því að hann væri svo illa haldinn af hnémeiðslum að hann hefði verið dæmdur til að missa annan fótinn við hné. "Betra að taka þá báða samtímis," sagði dr. Friðrik, "og kaupa svo góða fætur hjá Össuri, þú verður léttari á eftir og slærð öll fyrri met." Mér var lítil huggun í þessum orðum.

Við upplifðum okkur einkennilega frjáls á Brottfararplani, engir öskrandi þjálfarar að leggja línur um hlaup, nei - fólk var eiginlega feimið þegar kom að því að taka af skarið og leggja í hann. Gengið var á Ágúst um að drífa mannskapinn af stað, en hann færðist undan því. Loks kom hreyfing á Gísla og hópurinn lagði í hann. Veður lofaði góðu, svo góðu að ritari felldi niður þann sið sinn að hlaupa í flíspeysu og með balaklövu; lét nægja að fara í síðermapeysu og þunnum jakka, fullur bjartsýni sem sé. Sá eftir því síðar.

Hátt á annan tuginn lagði af stað frá VBL og ríkti gleðin ein, ofar hverri kröfu. Það var föstudagur, Fyrsti Föstudagur til að vera nákvæmur, sumir töldu að mætingu mætti að hluta til skýra með þeirri staðreynd. Farið rólega af stað til þess að hlífa Ágústi, sem er að stíga upp úr meiðslum og hefur ekki hlaupið í 3 mánuði. Hann var hægur af þeim sökum og rólegur framan af. Smám saman fór hópurinn að skiptast upp í deildir: fremstir fórum við Ágúst, Ágúst og ég, og einhverjir með okkur, við fórum hratt yfir. Á eftir kom fólkið af Nesi. Kári var í millideild, en aftastir voru Einar blómasali og dr. Friðrik. Frú Ólöf snöri við í Skerjafirði.

Nú gerðist undrið. Spurt var hvert skyldi halda. "Þið ráðið," sagði Ágúst á sinn hógværa og lýðræðislega hátt - þar með opnandi á möguleikann á að fara Hlíðarfót eða eitthvað annað. Þegar til kom var fólk svo innblásið að ákveðið var að fara Hi-Lux, og þannig áfram hefðbundið framhjá kirkjugarði, Veðurstofu og svo framvegis. Hér héldu hópinn Ágúst og ég, Helmut og dr. Jóhanna, Hjörleifur og Þorvaldur. Tempó var hratt, fórum á hröðu skeiði upp brekkur og hvíldum hvergi. Höfðum austanstæðan mótvind nánast alla Ægisíðuna, kaldan og ömurlegan, og hér saknaði ég þess að hafa skilið balaklövuna eftir í klefa. En þegar komið var í Öskjuhlíðina lagaðíst ástandið og maður  fann lítið fyrir vindi eftir það. 

Þegar við komum niður í Hlíðar römbuðum við á hóp sem við könnuðumst við: fjórir Nesverjar hlupu saman í grúppu á undan okkur og kunnu ekki að skammast sín. Höfðu stytt einhvers staðar á leiðinni og voru allt í einu komin á undan okkur helztu hlaupurum. Við jusum svívirðingum yfir þau og höfðum gaman af. Áfram um Klambra og svo stefnan tekin niður á Sæbraut. Þar rann upp fagurt skilningsljós um hlaup dagsins. Við vorum loksins búin að endurheimta okkar gamla þjálfara, Ágúst, og hann hafði með ótrúlega fjarverandi hætti laumað inn þeirri hugmynd að við ættum að hætta þessu Hlíðarfótarfokki og taka í staðinn alvöruvegalengdir. Hugur okkar var bjartur og skýr er hér var komið og við skynjuðum hina kynngimögnuðu nærvist félaga Ágústs og þau góðu áhrif sem hún hefur á hlaupara. Við vorum staddir á Sæbraut, ég og Ágúst, Helmut og Hjörleifur, höfðum náð grænu ljósi, hin urðu efitr, nema Þorvaldur, sem kom æðandi yfir gervalla Sæbrautina, trúr sínum uppruna, og lét hvorki æðandi bíla né rauð ljós stöðva för sína.

Við ákváðum að fara rólega á þessum kafla, og sjá til hvort eftirkomendur hefðu metnað til þess að ná okkur. En lögðum jafnframt á ráðin um að ef þau nálguðust, myndum við gefa allt í botn og skilja þau eftir í reyk. En metnaðurinn var ekki til staðar, svo að við fórum einir um Miðbæ. Ágúst furðaði sig á þeim hinu miklu framkvæmdum sem standa yfir við höfnina. Var hann upplýstur um að þarna risi senn Tónlistarhús, og ljóst að hann hefði verið svo lengi fjarri hlaupum að hann hefði misst af uppbyggingarsögu Reykjavíkur síðustu tvö árin. Á Mýrargötu sagði Ágúst að sér liði eins og hann hefði verið á einum, löngum spretti allt hlaupið - þetta hefði verið erfitt eins og síðustu 10 km í 100 km hlaupinu. Við hinir kímdum, og sögðum að þetta hlyti að vera skynvilla. "Já, líklega er það rétt," sagði Ágúst hnugginn. En hið rétta í málinu er að við vorum á einni, samfelldri flengreið alla leið frá Skerjafirði og til loka hlaups. Óþarfi að vera að ýta undir egóið hjá fólki og vera jákvæður.

Að hlaupi loknu var tekinn góður tími í að teygja á stétt, sagðar sögur, og fleira í þeim dúr. Menn voru afar sælir með hlaupið þótt erfitt hefði verið. Heyrðust menn ítrekað dæsa og segja orðið "dásamlegt!". Svo var farið í pott, en bara stutt - því Mimminn beið. Samþykkt að nota janúarmánuð í að taka út þá Fyrstu Föstudaga sem farist hafa fyrir síðustu fjögur árin eða svo.

Góð mæting á Fyrsta Föstudegi, lagðar línur um skráningu í Berlínarmaraþon og mun eitthvað bitastætt þar að lútandi fljótlega birtast á póstlista. Góðar kveðjur, ritari.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er rétt hjá Friðriki… hann Nonni Sig stjóri hjá Össuri var að kynna sitt kompaní í MBA náminu hjá okkur Flosa nýverið og hann sagði að innan skamms yrðu gervifæturnir mikið betri en þessir ekta. Ef eitthvað bilar er svo bara farið með fótinn á verkstæði og þú færð annan lánaðan á meðan það er verið að laga þann er bilaði.

EN KÁRI… HVAR VARST ÞÚ? En að smjatt á Le Fois gras, avec le vin rouge?

Big

birgir Þorsteinn Jóakimsson (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband