24.9.2007 | 22:20
Hugleiðing um hlaup
Maður getur velt fyrir sér hlaupum, verið með getgátur um hlaup, pælt í því hver mætir, hvers vegna, hvernig veður er, hver þjálfar, hvernig ástandi mannskapurinn er í, hvert er farið, hvað er sagt. Sumir upplifa herlegheitin, aðrir eru eymingjar og geta ekki hlaupið. Slíkan stimpil hafa í dag undirritaður, opinberlega skipaður annálaritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins, og opinber Blómasali Samtakanna. Við vorum svo aumir í dag að við gátum ekki hlaupið, en það gátu ýmsir af helztu máttarstólpum Hlaupasamtakanna: Gísli, Ólafur Þorsteinsson, Vilhjálmur, Magnús tannlæknir, Haukur, Eiríkur, Helmut, Þorbjörg, Anna Birna, og einhverjir fleiri. Ég mætti þeim í inniklefa (þó ekki konunum!), mér var svo kalt að ég treysti mér ekki til að fara út. Ég öfundaði þá af því að eiga hlaup í vændum, en lét vita að ég myndi ekki hlaupa. Fór út í pott og undi mér vel þar.
Furðu snemma þótti mér menn koma tilbaka til laugar, ekki var langt farið. Menn voru hissa að sjá mig í potti. Spurðu hvað hefði hindrað hlaup. Ég sagðist vera meiddur. Gísli horfði á mig, og sagði: "Þú ert með báða fætur áfesta. Hausinn er á sínum stað. Hver eru meiðslin?" Ég hélt mikla ræðu um sjúkdómavæðingu sænsks samfélags, þar sem menn mega ekki lýsa yfir vinnuleiða öðruvísi en að vera stimplaðir aumingjar og settir í förtidspension, "þú átt það skilið að þér líði ekki svona illa" - ég flutti mikið fagnaðarerindi um aðra nálgun íslenskra yfirvalda, og tók dæmi af dr. Friðriki sem hefur trekk í trekk dæmt próf. Fróða heilan heilsu, þegar sá síðarnefndi hefur hóstandi grunnum hósta, reynt að fá menn til þess að fresta sjósundi. Hefir þá téður dr. Friðrik lýst prófessorinn heilan heilsu og talið sjósund til þess fallið að bæta heilsu hans. Þarna er vel lýst muninum á nálgun heilbrigðisyfirvalda í Svíþjóðu og á Íslandi til lýðheilsu.
Ég sýndi þolinmæði og beið eftir mínum bræðrum í pott, komu loks Gísli, Ó. Þorsteinsson, Blómasalinn og fleiri. Þar var löng seta, við sáum VB koma út í handklæði og væntum hins versta, en sem betur fer hvarf hann snögglega inn aftur. Rætt um sjúkdóma, sjúkdómavæðingu, öfgar í hlaupum og fleira því tengt. Nú eru framundan sveitarstjórnarkeppnir í þekkingu, og verandi helztur Öðlingur Reykjavíkur hefur Foringi Vor til Lífstíðar valið keppnislið Vesturbæjarins gegn öðrum sveitarfélögum; mun vera uppi tensjón mikil og reynir á vináttu ónefndra Fóstbræðra. Verður gaman að heyra hvert framhald verður þar á.
Íslenzk tunga er í fyrirrúmi í potti, þar nýtur hún stuðnings og aðhalds, þar er reynt á þanþol tungunnar og ýmis afbrigði reynd. Í potti eru sagðar sögur, þar eru menn leiðréttir miskunnarlaust fari þeir vitlaust með mál Jónasar. Er það enda eitt af yfirlýstum markmiðum Hlaupasamtakanna að bæta málfar og skipulega hugsun hlaupara, sem oftar en ekki eru dæmdir sem hálfvitar sökum áhuga síns á hlaupum. Svo var og í potti í dag - þar var mikil leiðrétting málfars, og er það vel.
Nú hverfur ritari enn á ný til skyldustarfa á erlendri grund, hleypur næst á föstudag. Í gvuðs friði.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.