Bert hold á eyðiey

Í dag var farið í sjóinn og það sást bert hold, bæði hérna megin vogsins, flóans eða fjarðarins, allt eftir því hvernig menn vilja skilgreina hlutina, og hinum megin. Meira um það seinna. Sem fyrr voru of margir mættir til þess að hægt sé að fara með nafnaþuluna, 22-24 eftir því hver taldi eða hvernig var talið, kannski slæddust með einhverjir sundlaugargestir sem áttu bara leið um. Þó verður ekki hjá því komist að nefna þann einstakan mann er mætti og var sögulegt: Ólaf Þorsteinsson Víking af Víkingslækjarætt. Er þetta í fyrsta skipti í áratugi að hann mætir til hefðbundins hlaups á virkum degi -  en þar með uppfyllandi loforð er hann gaf s.l. sunnudag í Nauthólsvík. Nærvera hans sætti tíðindum, enda tíðum kallaður Formaður Vor til Lífstíðar, og var ekki laust við að maður fylltist stolti yfir að njóta félagsskapar svo ágæts foringja og leiðtoga - og synd að þjálfarinn skyldi strax taka orðið frá honum, sem ella hefði verið trúandi til að flytja snjalla tölu af tröppum VBL. En sumir hlauparar töldu sig sjá andlit og hnúa hvítna, svita, og jafnvel blóð, spretta undan hársrótum ónefndra aðila, en við því var ekki að gera, svona er að lifa í Samtökum þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja.

Þjálfarinn, Rúnar Reynisson, lagði línurnar, fara hægt og ekki reyna um of á sig, taka teygjur á Ægisíðunni, jóga. Svo fengu menn að velja vegalengdir, hraða o.s.frv. Keyrt af stað. Skeiðað inn í Nauthólsvík, farið í sjóinn, þessir: dr. Friðrik, Flosi, Birgir, Sig. Ingvarsson, próf. Fróði og annálaritari. Á ströndum Kópavogs var bert hold að gera sig klárt fyrir sjósund - einn selshaus sást í víkinni hafandi svamlað yfir Voginn. Sjávarhiti 11,3 gráður, fremur heitt fyrir þennan hóp. Síðar greindum við ekki færri en fimm manneskjur sem syntu án fylgdar yfir Voginn - virtist ekki góð hugmynd. Flosi illa skorinn af sundi, blóð lagaði úr fæti, en hann lét sem hann sæi það ekki, brá sér hvorki við sár né bana.

Áfram í dalinn, þeir feðgar Sigurður og sonur reyndu að trekkja próf. Ágúst upp í hraðara tempó, en ég, Birgir og dr. Jóhanna héldum aftur af honum, hann er meiddur og hefur ströng tilmæli læknis um að hvíla. Að fara á tempóinu 5:20 er að hvíla skv. kokkabókum Nagamura. Ekkert slegið af - margvísleg málefni krufin, ég náði að halda Ágústi svo uppi á snakki að hann gleymdi Kópavogslykkjunni, sem þeir Keldnafeðgar tóku.

Sem endranær var maður teygður út að Elliðaám, og þar skildu félagar mínir mig eftir, ég náði að hanga í þeim upp Stokkinn, en við Réttarholtsveg var ég orðinn hinn klassíski, einmana hlaupari, vinalaus og yfirgefinn! Það breytti hins vegar ekki ásetningi mínum um að ljúka miðvikudagshlaupi með fullri reisn - það var líka reyndin, var rétt á eftir hinum, en dálítið óheppinn með öll rauðu ljósin á leiðinni sem hin losnuðu við.

Hold var berað í hlaupinu. Að hlaupi loknu sagði ég Birgi þessa sögu og hann heimtaði hana inn á Eter: sem ungur maður fór ég gjarnan í Borgarbókasafnið á Hofsvallagötu 16, 3. hæð. Þar sat (þá) gömul (að mér fannst), gráhærð kona (látin fyrir fáeinum árum) og stimplaði bókakort fyrir þær bækur sem maður tók. Maður mátti taka eina bók fyrir hvert kort, ég var með fimm kort, þrjú fyrir mig, tvö fyrir Pétur bróður minn. Í einni ferðinni fann ég bók með brúnum kili og gyllingu, á kilinum var titill bókarinnar: Bert hold á eyðiey. Við þessa uppgötvun varð ég allur fír og flamme, byrjaði að titra og skjálfa yfir tilhugsuninni um að sleppa með þetta kontraband framhjá gráhærðu konunni sem stimplaði. Frávita af spennu tók ég þessa bók og laumaði henni sakleysislega í bunkann með hinum bókunum, en bjóst alveg eins við að konan myndi lyfta henni upp í fullkomnum viðbjóði, úthrópa mig sem óvenju ungan pornodog og neita að leyfa mér að fara heim með ritið. En áætlunin gekk fullkomlega upp, konan tók ekki eftir neinu og ég gekk sigri hrósandi út með mitt fyrsta klámrit, og það af bókasafni í eigu almennings. En þegar heim kom fór nú glansinn af ævintýrinu, gyllingin hafði greinilega ekki tekist sem bezt, bókin sem ég hafði tekið hét Berthold á eyðiey, og fjallaði um einhvern leiðinlegan, þýzkan (fyrirgefðu Helmut) vandræðaungling sem hét Berthold og lenti á eyðiey líkt og Róbinson forðum og glímu hans við óblítt umhverfið. Hér með er auglýst eftir fleiri unglingum sem lentu í þessari sömu klemmu.

Setið í potti um stund og skrafað um ketti, árshátíð, illa meðferð á börnum - og fleira uppbyggilegt.
Nú er að sjá hversu mæting verður næstu daga, annálaritari er upptekinn af verkum í þágu Lýðveldisins, og getur í fyrsta lagi mætt n.k. laugardag - en altént sunnudag. Brýnt er fyrir fólki að iðka hreinlæti og kurteisi. Í gvuðs friði, annálaritari.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér finnst mér hámarkinu náð. En sú náð að eiga slíkan stílsnilling meðal vor. Á mínu heimili eru börn, kona og kettir vanræktir með öllu þar til pistlar Ritara eru fulllesnir. Meira af svo góðu takk!

kv,

Big

BIrgir Þorsteinn Jóakimsson (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband