Vesturbæjarlaug.

Vesturbæjarlaug er upphaf og endir alls. Þar hefjast hlaupin - og þar lýkur þeim. Þar er brottfararsalur og þar er líka heimahöfn. Vatn er undirstaða lífs á jörðinni, líka í Vesturbænum. Hlauparar eru elskir að vatni. Félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins þrífast best í vatni og á vatni. Þeir elska sturturnar sínar, vatnsmiklar og kraftmiklar. Nú er komin ný sturta í útiklefa og sápa að auki - þetta elskum vér. Hafi þeir þökk fyrir er sýna slíkt framtak!

En það er ekki tekið út með sældinni að vera hlaupari! Þegar einn verkur hverfur, birtist annar. Nú hefur frétzt að vera Hlaupasamtakanna í anddyri Vesturbæjarlaugar fyrir hlaup veki svo sterkar tilfinningar hjá aðvífandi og væntanlegum baðgestum að þeir hverfi frá og felli niður ásetning um bað. Þetta hryggir oss ef rétt er - og við erum hnuggin og slegin. Hvernig getur það verið að öðrum finnist við ekki vera bæði fyndin og gáfuð þegar okkur finnst það sjálfum? Það hefur verið orðað við okkur að við "færum" okkur - ekki veit ég sosum hvert við ættum að færa okkur. (Nú munaði minnstu að ég segði: einhvers staðar verða vondir að vera, en sem betur fer hætti ég við það á síðustu stundu.) Við munum ekki hafa neina sektarkennd yfir því að hittast nokkrum sinnum í viku að laugu og sýna af okkur kæti og glatt viðmót.

En að því sem máli skiptir: hlaupi. Það var hlaupið í gær, miðvikudag. Miðvikudagar eru dagar hinna löngu hlaupa. Þá er einnig farið í sjóinn í Nauthólsvíkinni. Í gær mættu einir fjórtán hlauparar til hlaups frá Vesturbæjarlaug. Þeirra á meðal voru Friðrik læknir og próf. Fróði. Prófessorinn byrjaði á því að láta alla vita að hann væri sárlasinn, væri með kverkaskít og hefði hóstað allan daginn. Svo hóstaði hann grunnum hósta til að leggja áherslu á orð sín. Friðrik, spurði hann: er nokkuð skynsamlegt fyrir svona veikan mann eins og mig að fara í sjóinn í dag? Fæ ég ekki bara lungnabólgu? Friðrik svaraði honum því til að það gerði mönnum bara gott að fara í sjóinn. Svarið olli prófessornum vonbrigðum, en hann var ekki af baki dottinn. Upphóf mikinn úrtölubarlóm um hvað það væri óskynsamlegt að fara í sjóinn í dag, það væri nóg af baðdögum eftir í mánuðinum. Dr. Jóhanna sagði fyrir hlaup: að maður skuli vera að standa í þessu, helst vildi ég fara heim núna og fá mér að borða. En um leið og fólk er komið af stað hættir svona neikvæðni og lífið fer að brosa við hlaupurum.

Það var hlýtt í veðri í gær og yndislegt að hlaupa. Komið við í Nauthólsvík og einir fimm fóru í sjóinn: Friðrik, Ágúst, Ólafur ritari, Kári og Gísli. Aðrir hlauparar stóðu á rampinum og horfðu aðdáunaraugum á sjósundsmenn. Svo hlýtt var í sjónum að við Ágúst heimtuðum vatnskælingu - sem Haukur brá skjótt við og veitti okkur fúslega. Rætt um að koma upp ísmolabaði eins og ku vera að finna á Skaganum. Áfram var hlaupið um Lúpínuvelli og inn í Fossvog. Þrír fóru Goldfinger og upp að Árbæjarlaug (25 km), sex fóru 69 (tæpir 18 km). Endað í barnapotti Vesturbæjarlaugar og skrafað þar um stund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband