23.2.2025 | 21:09
Breyttir tímar
Nokkurð er orðið um liðið frá því að seinast var bloggað á vef Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Síðasti póstur var á miðju Covid-tímabili þegar menn héldu 2 m fjarlægð hver frá öðrum á hlaupum og liðlega 100 mannns var hleypt í einu til Laugar. Nú er öldin önnur og tímarnir breyttir. Stríð er háð í Evrópu og maður lítt elskur að sannleikanum sestur í húsbóndastólinn í Hvíta húsinu. En áfram hlaupum við félagar í Hlaupasamtökunum, þótt á öðrum tímum sé en áður fyrr. Er nú farið kl. 6:02 á þriðjudögum og fimmtudögum, og 7:30 um helgar, ýmist á laugardögum eða sunnudögum eftir því hvað hentar best.
Af þeim sem féllu kylliflatir í Kirkjugarðinum fyrir þremur árum hlaupa enn Einar blómasali, Ólafur skrifari og Kjartan (sem stóð að vísu í lappirnar), en Friðrik er í pásu frá hlaupum vegna heilsubrests. Við hópinn hafa bæst og endurnýjað kynnin af malbikinu Hjálmar og Ósk, Ólafur Gunnarsson, Jóhanna og Baldur Tumi. Hópurinn kom sterkur inn í RM 2024, þegar Kjartan, Óli Gunn og skrifari hlupu allir heilt maraþon, Frikki hljóp eitt og hálft maraþon og Einar hálft. Baldur Tumi hljóp Laugaveginn stuttu áður. Allir vorum við sammála um að tíminn hafi verið afleitur og sórum þess dýran eið á marklínu að reka ekki þjálfarann, heldur spýta í lófana og æfa enn betur fyrir maraþonið 2025. Í þetta sinn ætlum við að taka mark á ráðleggingum og taka æfingahlaupin rólega, í stað þess að gefa í og reyna að hlaupa sem hraðast í hvert eitt sinn.
Hópurinn er ekki lokaður né fara hlaupin leynt og getur hver sá sem treystir sér til að vakna á óguðlegum tíma hlaupið með okkur. Við förum 8 km í miðri viku, en 12-15 um helgar yfir vetrarmánuðina, lengjum svo þegar maraþon-undirbúningur hefst. Með von um gjöfult hlaupaár!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning