25.7.2021 | 17:29
Hlaupið í kyrrþey
Fjarri sé það mér að hreykja mér af unnum afrekum, en þeim mun heldur er það mér metnaðarmál að halda félögum mínum upplýstum um þau hlaup sem innt eru af...fæti. Nú er það svo að ráðgert er að halda maraþon í Reykjavík hinn 21. ágúst nk. - ef veiran lofar. Þar er Skrifari samviskusamlega skráður í hálft maraþon. 2019 hljóp ég síðast þá vegalengd og var á tímanum 2:20 eða þar um bil. Tími sem ónefndur þingmaður hefði verið sæmdur af. Ekki meira um það. Nú stóð vilji til þess að bæta þann tíma lítillega.
Til þess að bæta tíma þarf að æfa. Ef menn vilja ná árangri er gott að æfa skipulega og hafa prógramm. Ekki er verra að hafa þjálfara. Ég bý að vísu ekki jafn vel og Einar blómasali sem hefur einkaþjálfara sem býr í Kópavogi og er ávallt reiðubúinn með góð ráð þegar eftir er leitað. Málið er bara að það er ekki leitað svo mikið eftir góðum ráðum hjá þessum þjálfara. Einar er nefnilega ekki mikið í því að æfa skipulega og eftir prógrammi.
Er þá komið að næsta punkti. Gott er að hafa æfingafélaga til þess að hvetja sig áfram og gera æfingarnar þolanlegar. Ekki býr Skrifari svo vel að hafa félaga sem æfa skipulega og samviskusamlega með honum að ofangreindu marki, eftir prógrammi og með einkaþjálfara. Menn eru nefnilega út um hvippinn og hvappinn á besta æfingatíma og ná engan veginn að stilla saman strengina. Frikki að fara Súlur, Einar í sumarbústað, Óli Gunn að synda í sjónum í Eyjafirði. Svo að Skrifari hleypur einn.
Planið var að fara eitt langt hlaup um hverja helgi. Farið að Stíbblu fyrir tveimur vikum, 19 km, Kársnes fyrir viku 20 km - og toppurinn kom á þessum morgni, upp að Árbæjarlaug 21 km á tímanum 1:58. Æfingahlaup NB í stífum mótvindi fyrstu fjóra kílómetrana. Gott er að rifja upp gamlar hlaupaleiðir og mikil nostalgía í blóðinu: Kársnes, Árbæjarlaug, staðir sem maður hefur ekki heimsótt í áratug eða svo. Bara sæla!
Niðurstaðan er þá þessi: gott er að æfa fyrir langhlaup, æskilegt að hafa æfingaáætlun (prógramm), ekki verra að hafa einkaþjálfara, hlaupafélagar gera æfinguna bærilega. Ef ekki vill betur gengur líka ágætlega að hlaupa einn og í kyrrþey. Hlaupasamtökin munu eiga sína fulltrúa í Reykjavíkurmaraþoni 2021 sem endranær.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.