Glæsileg endurkoma

Nú um nokkurt skeið höfum við helstu drengirnir í Vesturbænum þvælst um eins og höfuðlaus her og vart vitað í hvorn fótinn við ættum að stíga. Höfum samt mætt og haldið úti hlaupum í þeirri von að við værum þrátt fyrir allt á réttri leið. Svo gerist það skyndilega að Vesturbæjarlaug opnar dyr sínar fyrir gestum eftir tveggja mánaða lokun. Boðað er til hlaups frá Laug á sunnudegi og hvað gerist? Haldið ekki að bæði Magnús Júlíus og sjálfur Ó. Þorsteinsson Formaður til Lífstíðar, mæti í hlaupið, galvaskir, reifir og tilbúnir í slaginn, auk okkar Einars blómasala og Friðriks. Eðlilega urðu fagnaðarfundir og tekin góð stund á Plani til þess að ræða málin og undirbúa hlaup. Hvílík endurkoma!

Niðamyrkur er á kl. 9:15 að morgni og náttblindir eins og blómasali útrústaðir með skæru handljósi. En nú styttist í stytsta sólargang og eftir það liggur þetta bara upp á við með aukinni birtu sólar dag frá degi. Núna var sumsé myrkur og á Ægisíðu er algjört myrkur. Því má passa sig að hlaupa ekki niður aðvífandi hlaupara, sem ævinlega eru svartklæddir og ljóslausir, að ekki sé minnst á Spandexliðið á reiserunum sem kemur á háskalegum hraða, helst á göngustígnum, grenjandi: "Farið frá! Við erum í tímatöku!!"

Á sunnudögum er ævinlega farið hefðbundið og var svo einnig nú. Sagðar voru fallegar sögur, sumar hverjar jafnvel hjartnæmar, enda viðeigandi á aðventunni að blanda slíku efni saman við annað efni þjóðfræðilegs eðlis. Hiti úti 8 gráður, auð jörð, færi aldeilis frábært, en einhver gjóla við flugvöll. Og þetta er í miðjum desember! Elstu menn muna vart eftir öðru eins blíðviðri á þessum árstíma.  Hlaup gekk því tíðindalítið fyrir sig, staldrað við á heppilegum stöðum til myndatöku eins og farið er að tíðkast. Ekki er ósennilegt að myndir verði birtar á fésbókarsíðu Samtaka Vorra.

Leiðin lá um Ægisíðu, Flugvöll, Nauthólsvík, Kirkjugarð, Veðurstofuhálendi, Klambra og hefðbundið um Laugaveg tilbaka til Laugar. Þar er grímuskylda í anddyri og því nauðsynlegt fyrir hlaupara að hafa grímuna tiltæka allt hlaupið svo bregða megi henni fyrir vit er komið er tilbaka. Í Pott mættu Einar Gunnar og Mímir og spruttu upp áhugaverðar umræður um matreiðslu á ekta schnitzel eins og hún mun vera iðkuð í hinu sósíalistíska eldhúsi við Skúlagötu. Hvar af einnig umræða um vin okkar sem þangað sækir sér næringu.

Minnt er á utanvegahlaup Samtaka Vorra frá Boðaþingi 18 nk. laugardag 19. desember kl. 9:00 stundvíslega.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband