3.5.2018 | 20:26
Hlátur
Nú verður aftur hlýtt og bjart um bæinn.
Af bernskuglöðum hlátri strætið ómar,
orti hið ástsæla skáld Vesturbæjarins, Tómás Guðmundsson. Og víst gullu við hlátrasköll um Vesturbæinn í gær, á hlaupadegi hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Einar blómasali hló hæst, hinir gátu þó hætt. Tilefnið var heiðvirð tilraun hjá tveimur hlaupurum, Magnúsi tannlækni og Ólafi skrifara, til þess að þreyta hefðbundið hlaup á miðvikudegi. Þegar þeim mætti öskublindbylur beint frá Norðurpólnum þá þegar er komið var niður á Ægisíðu sáu þeir að það var engin glóra að reyna hlaup illa búnir og hurfu tilbaka.
Þetta varð þeim Einari blómasala, Ólafi heilbrigða og Guðmundi Löve að yrkisefni. Þeir settu saman stuttan leikþátt sem fluttur var í miðju hlaupi þessara nefndu hlaupara og hófst að lokinni tilraun okkar Magnúsar og við gerðir sem afskræmislegastir og aumkunarverðastir þar sem við brutumst gegnum smáél og örlitla golu og sammæltumst um að hverfa til Laugar. Og svo hristust hin nýfundnu leikskáld ákafliga yfir eigin fyndni. Einar geislaði sem Vesturbæjarsólin er hann kom til Laugar að loknu hlaupi og ætlaði aldrei, að sögn vitna, að geta hætt að hlæja.
Jæja, er nú skórinn kominn á hinn fótinn, ef þið takið meiningu mína! Skrifari mætti af nýju til Laugar á fimmtudegi, staðráðinn í að hefna fyrir sneypuför gærdagsins, og lagði upp í einkahlaup kl. 16:20. Það var stífur mótvindur og kalt í veðri, en ég lét það ekki stöðva mig, enda útrústaður með balaklövu í þetta skiptið og aukabol. Það var ekkert sólskin líkt og í gær, enda sólskinshlaupurum ekki út sigandi. Á sínum tíma, eftir Nauthólsvík brast á með glórulausri hryðju sem ætlaði engan endi að taka. En það stöðvaði ekki þennan hlaupara. Hann hljóp í einni beit frá Laug, um Nauthólsvík, Suðurhlíð, hjá Perlu og tilbaka til Laugar án þess að stoppa og án þess að blása úr nös. Fyrsta heila meðallanga hlaupið í endurkomu, eftir innan við tvo mánuði.
Hlæið að því, ormarnir ykkar!
Í gvuðs friði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.