30.4.2017 | 16:12
Endurkoma - bjartar vonir
Í day varð sá sögulegi viðburður að Skrifari mætti af nýju í hlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Fyrir á fleti voru Ólafur Þorsteinsson og Þorvaldur Gunnlaugsson og fögnuðu þeir endurkomunni innilega. Við hófum þegar í Brottfararsal að gefa yfirlit yfir umfjöllunarefni dagsins: Vilhjálm Bjarnason, starfsumhverfi tannlækna, ættir kvenna o. fl. Lagt af stað í fögru veðri stundvíslega kl. 10:10, en mikið söknuðum við Magga. Ekkert jafnast á við sunnudagshlaupin, þau eru helgistund með heilbrigðisinnslagi.
Það skal viðurkennt að skrifari var bæði þungur og hægur á sér, stirður og mæðinn. En það sem skipti máli var að fara út og hreyfa sig og standa við áður útgefin loforð um hlaup í apríl. Að ná upp svita. Það tókst þótt ekki væri farið lengra en að Skítastöð, þar kvaddi skrifari félaga sína, þakkaði fyrir samhlaupið og sneri við.
Það var ýmist hlaupið eða gengið tilbaka og komið í Pott upp úr 11. Í Potti voru próf. dr. Einar Gunnar, Denni, Jörundur, og síðar bættust Ólafur Þ. og Þorvaldur G. auk Stefáns verkfræðings í hópinn. Eins og gefur að skilja var farið víða í umfjöllun dagsins, rétt fyrir rangt svar í Hrepparnir keppa, starfsumhverfi tannlækna, leikhúsgagnrýni, Eftirlitsstofnun EFTA, ný hlaupaleið í Hrútafirði á sumri komanda, rektorsefni Reykjavíkur Lærða Skóla o. fl. o. fl. Ávallt hugað að ættum manna og hefðbundinni persónufræði. Gaf Formaður það út að Sæmundur Þorsteinsson væri mátulega hortugur fyrir hópinn og æskileg viðbót við félagatalið, en Sæmi er sonur Steina sem var lengi sundlaugarvörður í Laug Vorri.
Allt um það, ákveðið að hlaupa af nýju á morgun, Verklýðsdaginn, kl. 10:10. Vel mætt!
Athugasemdir
Var VB umræðuefni; Er þessi vb ekki örugglega dauður?
Vilhjálmur Bjarnason (IP-tala skráð) 1.5.2017 kl. 08:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.