3.4.2016 | 14:17
Skrifari mætir til hlaupa á ný
Þau tíðindi urðu í dag í annálum Samtaka Vorra að Skrifari mætti til hlaups á sunnudegi og mun vera í fyrsta skipti í ár að það gerist. Aðrir mættir voru Jörundur, Maggi og Einar blómasali. Veður fagurt, hægur vindur og 6 stiga hiti, gerist vart betra á þessum árstíma. Var skrifara að vonum fagnað eftir svo langa fjarveru, en jafnframt lýst yfir vilja til að fara hægt, jafnvel ganga inn á milli.
Í Brottfararsal var sett fram hugmynd um það að Vilhjálmur þingmaður vor flytti tillögu í þingflokknum um slit stjórnarsamstarfs. Með því tryggði hann sér þingsetu alla vega eitt kjörtímabil í viðbót.
Lagt upp frá Laug á hægu tempói og snerist umræðan um væntanlegan Kastljóssþátt í kvöld þar sem er að vænta mikillar afhjúpunar. Við Jörundur héldum hópinn en þeir hinir fóru á undan með miklum gorgeir og yfirlýsingum. Fórum bara rólega og ræddum möguleikann á að hlaupa hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoni, við myndum þó alla vega vera á undan VB þótt engar yrðu rósirnar.
Gengið í Skerjafirði og leitað að Bauganesi. Svo var hlaupið áfram og eftir það skiptist á göngu og hlaupi sem er svo sem ekkert nýtt á sunnudögum. Náðum þannig einum 5 km og allnokkrum svita sem verður að teljast bara þokkalegt í fyrsta hlaupi eftir meiðsli. Mættum Línu á leið til kirkju og lýsti hún yfir mikilli ánægju með þessa tvo hlaupagarpa.
Pottar allir meira og minna dysfunksjónal svo að menn urðu að hnappast í stóra pottinn, en þar var valinn maður í hverju rúmi: Helmut og Jóhanna, Unnur og Pjetur, Tobba, Einar Gunnar, Mímir, Dóra og Stefán verkfræðingur auk okkar Jörundar. Sumsé enginn Formaður til Lífstíðar og er því eðlilegt að menn spyrji: hvar var Formaður á svo ágætum degi þegar við helstu drengirnir í Vestbyen hlupum?
Næst er hlaupið á morgun mánudag kl. 17:30.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.