2.11.2014 | 20:15
Vetrartími
Upp er runninn vetrartími í starfsemi Hlaupasamtakanna, hvað menn athugi. Nú er hlaupið frá Laug Vorri á sunnudögum kl. 10:10. Þetta hefði Maggie betur athugað áður en hún kom stjórnlaus í hádegispott og úthúðaði öllum viðstöddum fyrir að senda óljós skilaboð.
Jæja, mættir í hefðbundið hlaup Formaður til Lífstíðar, frændi minn og vinur, Ó. Þorsteinsson, og Jörundur prentari. Þeir hlupu hefðbundið - og er þó Jörundur að jafna sig eftir hjartafeil, en þeir gerðu stanz þegar svo bar undir. Er þeir komu tilbaka beið þeirra heldur betur mannaður Pottur: próf. dr. Einar Gunnar Pétursson, sonur hans, Ólafur Jóhannes, Baldur Símonarson, dr. Mímir, Helga Jónsdóttir frá Melum, Helga Jónsdóttir af Ægisíðu, Stefán Sigurðsson verkfræðingur, Magano, skrifari auk téðra hlaupara. Eðlilega urðu fagnaðarfundir og menn hófu óðara að rifja upp nýleg andlát og jarðarfarir. Rætt um jólabækur, Helga frá Melum venju fremur ktítísk á rithöfunda samtímans. Upplýst um vegferð V. Bjarnasonar gegn braskarastétt einni - og var skrifari sleginn yfir að hafa ekki fengið erindi frá VB af því tilefni.
Formaður óskaði eftir að boðum yrði komið á framfæri við hlaupara að vetrartími er genginn í garð og hlaup stunduð frá Vesturbæjarlaug á sunnudögum kl. 10:10.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.