1.8.2014 | 14:31
Leggjabrjótur
Fjórði leggur á Pílagrímaleið var farinn í gær, 31. júlí, á afmælisdegi Kaupmannsins. Skipt var á bíla við Vesturbæjarlaug. Þessi gengu: Helmut, Flosi, Ólöf, skrifari og kínversk vinkona Maggiear, Guzhou, ef ég man rétt. Þessi hlupu: Ágúst, Jóhanna, Frikki, Rúna og Maggie, auk þess sem Guðrún Geirsdóttir bættist við á Þingvöllum.
Göngufólk ók sem leið lá í Hvalfjörðinn og lagði bíl Kaupmannsins á bílastæði í botni. Þar var lagt upp í góðu veðri, sól og 18 stiga hita, en norðangjólu sem kældi. Gangan upp úr Hvalfirði var tíðindalítil og frekar auðveld. Flosi sýndi fljótlega tilburði til þess að arka á undan hópnum og var ekki langt um liðið þegar hann var búinn að setja nokkra vegalengd á milli okkar.
Þegar við höfðum gengið ríflega 8 km mættum við hlaupurunum. Svo skemmtilega vildi til að við mættumst við vörðu nokkra, en nánari staðsetningu kann ég ekki. Hér þreifaði Ágúst inn í vörðuna og dró þar út koníakspela. Þar var einnig að finna nokkur staup. Sunginn var afmælissöngurinn fyrir Friðrik og skálað í koníaki. Svo héldu hóparnir hvorir sína leið.
Áfram þrammað í grýttu landslagi og mætti segja mér að hlaupurum hafi reynst torveld yfirferðin með norðangjóluna í fangið. Leggjabrjótur ber nafn með rentu, einstaklega grýtt leið og erfið.
Komið á Þingvöll eftir nær fimm tíma göngu. Flosi villtist af leið og endaði í 23 km, Helmut í 21 og við hin milli 17 og 18 km. Flosi beið okkar við Flosagjá eins og var við hæfi. Þar dró Helmut upp kampavínsflösku og var aftur skálað fyrir Friðriki Kaupmanni.
Frábær ganga í fallegu landslagi að baki og bíða menn spenntir eftir næsta legg, frá Þingvöllum að Apavatni.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.