6.7.2014 | 22:29
Hlaupið í Borgarfirði - og hugsað um gvuð
Við Jörundur vorum líklega þeir einu sem tóku hlaup dagsins alvarlega, fyrsti leggur Pílagrímaleiðarinnar frá Bæ í Borgarfirði að Lundarkirkju. Við hugsuðum um gvuð og ræddum gvuðdóminn og efstu rök tilverunnar. Aðrir mændu niður á fætur sér í þúfnakarga og höfðu áhyggjur af því að væta fætur sína.
Safnast saman við Vesturbæjarlaug kl. 9:00 og dreift sér á bíla. Ekið sem leið lá í Borgarfjörðinn, fram hjá Fossatúni og að Bæ. Þar hóf fyrsti hópur göngu í átt að Fossatúni - Jörundur, skrifari, Tobba og Helmut. Búið var að vara okkur við mikilli bleytu á leiðinni, en hún varð minni en viðvaranir gáfu tilefni til. En færið erfitt engu að síður, mikið um þúfur og úr sér sprottið gras. Hér um slóðir beita bændur fé sínu frekar á skóga en gras. Teknar myndir af hópnum á leiðinni og þess ávallt gætt að hafa skarð í hópnum til þess að geta skeytt blómasala inn á myndirnar eftir á. Hann hafði nefnilega sagt að hann yrði mættur á tilsettum tíma á tilteknum stað, en það brást sem endranær.
Hlauparar ætluðu að hlaupa sömu leið, en hófu hlaup á eftir okkur göngufólki. Raunar fór það svo að við urðum hlaupara ekki vör fyrr en við komum í Fossatún og lukum fyrsta hluta göngu/hlaups. Hér safnaðist myndarlegur hópur saman - auk áðurnefndra voru þessir hlauparar: Frikki, Rúna, Jóhanna, Ágúst, Maggie, Einar blómasali - og svo beið frú Vilborg okkar í Fossatúni.
Það var haldið áfram inn í Lundarreykjadal og stefnan sett á Lundarkirkju. Sumir hlupu, aðrir gengu. Helmut mælti með léttu skokki, en á brattan var að sækja, brekka framan af. Sumir hlupu, en skrifari kaus að ganga fyrstu metrana, en loks var ekki undan því vikist að hlaupa. Framundan var 11 km hlaup. Það var hlaupið í einsemd framan af, en þó sáust hlauparar framundan. Gekk bara furðu vel og áður en yfir lauk hafði skrifari náð Jóhönnu og Rúnu og Frikki ekki langt undan. Þá ók Helmut bíl sínum á móti hlaupurum og hafði fyllt hann eftirtöldum ólátabelgjum: Ágústi, Einari og Frikka, allir gerðu þeir hróp að skrifara, gefandi bendingar með höndum og fingrum sem voru þeim ekki til sóma.
Skrifari kom á góðum tíma að Lundarkirkju með Rúnu, Jóhönnu og Maggie - og Jörundur kom stuttu síðar til kirkju, hafandi vel nýtt tímann til þess að íþenkja boðskap himnafeðga og huga að sálarheill sinni. Hann nýtti tímann í hlaupi einnig til þess að vinna gagn baráttu sinni gegn lúpínunni, en af henni var nóg á leiðinni.
Að vel heppnuðu hlaupi loknu var haldið til Hreppslaugar og hlauparar og göngufólk fyllti heitan Pott og átti gott samtal um góðan dag.
Við bíðum spennt eftir næsta legg. Hvatt er til þátttöku.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.