Skapmildur maður hleypur

Einar blómasali var aðalhvatamaður að hlaupi dagsins er hann ótilknúinn sendi út boð um hlaup og hvatti Þ-laga hlaupara sérstaklega til að mæta. Hvað hann átti við með þessari líkingu er erfitt að átta sig á, en mæting var með því betra sem gerst hefur í sumar. Þessir mættir: próf. Fróði, Flosi, Bjarni, Einar sjálfur, Jóhanna, Helmut, Tobba, Maggie, Ólafur hinn, Ingi, Maggi, Kári og skrifari. Og Kaufmann Federico er liðið var á hlaup. Hvílíkur hópur! Og í ofanálag er Helmut búinn að boða göngu/hlaup á laugardag sem hefst í Bæ í Borgarfirði, að vísu bara 17 km, en Ágúst ætlar að hlaupa fram og tilbaka og lengja svolítið eftir það. 

Það var stemmning fyrir e-u alvöru, ekkert fyrir aumingja. Trebroer var nefnt, e-r sagði 69 og sumir töldu sig heyra fleygt Goldfinger. Nema hvað, Helmut að koma tilbaka eftir fjarveru og ætlaði stutt, líklega hefur Magnús Júlíus haft uppi viðlíka metnaðarfull áform. Aðrir ætluðu að nýta daginn til fullnustu og láta skeika að sköpuðu, menn vildu ekki láta deigan síga eða linan lafa, látum móðan mása og pennann rápa. Menn börðu sér á brjóst og stigu á stokk. Haldið var úr Hlaði.

Rólega var farið í alveg ágætu veðri, enginn virtist hafa orðið var við lægðina djúpu sem spáð var. Þurrt, nokkuð bjart, stillt og 14 stiga hiti. Gerist ekki öllu betra. Menn héldu á Sólrúnarvelli eins og hefðin býður. Þekktir hraðafíklar í forystu, en hæverskari og raunsærri menn að baki.

Skrifari var í kunnuglegri stöðu, með blómasala og Tobbu fyrir framan sig, en Kára og Helmut að baki. Hlaupið í einsemd, en hlaup var gott. Hlaupið sleitulaust út í Nauthólsvík og er þar var komið tók hann fram úr þeim skötuhjúum og nefndi hin gullnu orð: "Fögur er fjallasýnin." Blómasali trompaðist og gaf til kynna drykkjarstopp, en í stað þess að stoppa hélt hann sjálfur áfam og setti stefnu á Flanir. Bjarni var í e-u reiðileysi á þeim slóðum og úr varð að við héldum einnig á Flanir með stefnu á Suðurhlíðar meðan Helmut beygði af og fór Hlíðarfót.

Við hin héldum sumsé áfram og vorum bara býsna brött, Einar e-ð á undan okkur, en ekki langt á undan, og Flosi á undan honum, svolítið langt á undan. Einar beygði svo upp á brú yfir Kringlumýrarbraut og hafði greinilega einsett sér að fara annað hvort Trebroer eða 69. En við Tobba og Bjarni létum okkur nægja að fara út á Kringlumýrarbraut og svo upp Suðurhlíðar. Tókum þessu rólega og stoppuðum á milli, en reyndum taka brekkuna í einum rykk, það tókst nokkurn veginn. Svo var það leggurinn upp að Perlu og þar skildi Tobba okkur Bjarna eftir og vildi greinilega ekki félagsskap af svona slökum hlaupurum.

Eftir þetta vorum við Bjarni einir en vorum bara býsna brattir að eigin mati. Fórum hjá Perlu og niður Stokk og svo var stefnan sett á Akademíuna á nokkuð hörðu skeiði. Farið hjá Háskóla og Þjóðarbókhlöðu og þá leið tilbaka. Teygjur og Pottur.

Er komið er til Laugar kemur í ljós að félagar okkar, Kári og Helmut, eru ekki í okkar hefðbundna Potti heldur í hinum nýja túristapotti. Þetta veldur hugarvíli, en á því er tekið af kaddlmennsku (frb. Bjarna Guðnasonar prófessors). Er skrifari kemur í Pott til Helmuts tekur hann eftir aðstæðum sem verða ekki kallaðar annað en gíslataka: afkomandi Einars Ben. hefur hernumið Helmut og heldur honum sem viðræðugísl og beitir hann hörðu. Helmut er feginn komu minni, en lætur undir höfuð leggjast að vara mig við hættunni. Mér verða á þau mistök að skjóta inn orði sem beina athygli hryðjuverkakonunnar að mér, hún verður hugfangin af ásýnd ritara og um leið dettur Helmut út úr Kastljósinu. Hann notar tækifærið til þess að segja að hann eigi brýnt erindi við mann í Örlygshöfn (sem var helber lygi, hann fór ekkert í Örlygshöfn), fjarlægir persónu sína úr Potti og lætur sig hverfa. Nú hefur afkomandi Einars Ben. sett klærnar í skrifara og saman ræða þau ýmislegt er lýtur að opinberum persónum, innan sem utan Stjórnarráðs. Við urðum sammála um að Björn Bjarnason væri ekki alslæmur maður og að ýmsu leyti líkur föður sínum. Og ekki væri Valgerði, systur Björns, verr í ætt skotið.  

Samtalið varð langt og ítarlegt og báru á góma ýmsir sameiginlegar kunningjar. Þá kom Bjarni Benz á svæðið. Þá breyttist allt. Eitthvað var farið að hreyfa við kvótamálum og efnahagsmálum og Bjarni upphóf mikla endursögn á samtali við Víglund Þorsteinsson úr Útvarpi Sögu um óstjórn efnahagsmála undir stjórn Steingríms Sigfússonar. Mín bara umpólaðist og heimtaði að fá að vita hvað skrifari væri að meina með því að umgangast svona vitleysinga. Lét það ekki duga, heldur jós vatni yfir þennan friðarspilli (Bjarna), og fór í annan hluta Potts. Skrifari spurði Bjarna hvort hann hlustaði í alvöru á Útvarp Sögu. Jújú, það er eina stöðin sem hlustandi er á og þorir að taka upp mál sem reynt er að þaga í hel annars staðar.

Nú var afkomandi Einars Ben. komin hringinn og farin að ræða af nýju við skrifara. "Þú ert skapmildur maður, að geta talað af slíkri stillingu við svona vitleysing eins og þennan skeggjaða íhaldsgaur." Ég sagði henni að við værum hlaupafélagar og værum alvanir að deila um málefni á hlaupum. Þá sagði hún: "Er þetta kellingin hans?" og átti við Tobbu. Ég spurði á móti: "Hvaða kona heldurðu að vilji svona stækan íhaldsgaur?" Hún samsinnti og var á því að slíkt væri ólíklegt.

Hér fóru mál að róast og tímabært að hafa sig í garmana til að sækja haughopparann til Frikka. Þeir voru að koma tilbaka eftir 69, Flosi, blómasalinn og Fróði, voru keikir eins og hanar á Haug.

Fyrsti Föstudagur er nk. föstudag. Stefnir í Benna og Bjór á Ljóninu, leikur kl. 16 og aftur kl. 20. En við sleppum ekki hlaupi fyrir fóbbolta. Mætum vel.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband