Kunnugleg andlit

Þar kom að því, Hlaupasamtökin farin að líkjast sjálfum sér á föstudegi. Skrifari mættur fyrstur í Útiklefa í 17 stiga hiti. Svo kom próf. Fróði, gamli barnakennarinn, Jörundur, Magnús Júlíus, Ingi, Kári - og hver var ekki mættur í kvennaklefa? Próf. dr. Keldensis, Sigurður Ingvarsson. Menn forvitnuðust um hvað hann væri að gera í kvennaklefanum, en fengu óskýr svör. Svo beið Maggie eftir okkur í Brottfararsal og fljótlega dúkkaði Ó. Gunnarsson upp. Uppi eru áform um hlaup á Snæfellsjökul, á morgun og svo kringum Hafravatn eftir óljósum lýsingum. Aðrir hlauparar halda sig við jörðina. 

Maggi sagði "Ólafur, eigum við ekki bara að fara hægt?". Skrifari samsinnti þessu, en sá ekki reykinn af Magnúsi eftir að hann lagði upp. Sólin skein, stilla var á og útlit var fyrir gott hlaup. Skrifari lenti í þekktri stöðu, milli fremstu hlaupara og þeirra hinna sem hægar fara, óþarfi að tilgreina nöfn, en trúlega geta menn gert sér í hugarlund hverjir voru hvar. Þó kom mönnum í opna skjöldu hversu hægur Ó. Gunnarsson var í dag og var það sérstakt ígrundunarefni fyrir Fróða. 

Það eru þessir fyrstu fjórir kílómetrarnir inn til hennar Jósefínu sem enn eru mesta áskorunin. En skrifari var einbeittur í að meika það. Maggi fimmtíu metrum fyrir framan og leit ekki aftur þrátt fyrir gefin fyrirheit. Það var heitt og lýsið rann. Áður en vitað var af voru hlauparar komnir inn í Nauthólsvík og þaðan var haldið á Flanir, Ristru Flanir, en svo beygt upp til vinstri hjá Allsherjargoðanum.

Þegar komið var í brekkuna í Öskjuhlíðinni sá skrifari, fyrir utan fullt af undarlegum perrum, Magnús Júlíus efst í brekkunni, fimmtíu metrum fyrir framan hann og leit ekki aftur. Og þegar komið var upp fjölgaði í hópi perra, en skrifari hélt áfram. Og er komið var hjá kirkjugarði blasti Magnús Júlíus við í síðasta sinn, eftir það sást hann ekki meira. En skrifari hélt áfram og gafst ekki upp þrátt fyrir kílóin. Það er mikilvægt að halda áfram, gefast ekki upp, láta kílóin brenna upp í lýsisbræðslunni. Hér varð skrifara hugsað til blómasala sem ákvað að fara frekar í Þórsmörk með fjölskyldu sinni en að hlaupa í glaðra sveina hópi og brenna lýsi.  

Þetta var hefðbundinn föstudagur og farið hjá Saung- og skákskólanum í Litluhlíð, um Klambra og niður á Sæbraut. Þar var ekki deigan dropa að hafa í vatnsfontum hreppsnefndarinnar og má það heita hreinn skandall. Til hvers var valinn nýr borgarstjóri sem getur ekki einu sinni séð útivistarfólki fyrir rennandi vatni? Þar sem skrifari er á leið um hafnarsvæði verður á vegi hans hreppsnefndarfulltrúi Hlaupasamtakanna, Hjálmar. Skrifari tók hann tali og lýsti fyrir honum ástandi mála, bæði í Nauthólsvík, þar sem svo lítið vatn drýpur úr vatnsfonti að það er ekki vinnandi vegur að ná upp vatni þar; eða á Sæbraut þar sem ekkert vatn er að hafa. Hjálmar lofaði strax bót og betrun og bauðst til þess að draga með sér embættismenn hreppsins til hlaupa og leyfa þeim að reyna sjálfum að draga upp vatn af veikum bunum.

Jæja, það er farið um hafnarsvæðið og hjá Búllu, nú hefði verið gott að hafa Bjarna með sér sem ávallt sækir vatn í greipar Tomma Búllustjóra. Upp Ægisgötu og hjá Kristskirkju, en engin guðrækileg starfsemi, haldið áfram niður Hossvallagötu og til Laugar. Gott hlaup að baki og mikil brennsla.

Í Pott mættu góðir félagar, prófessor Fróði, gamli barnakennarinn, gamli prentarinn, gamli tölvunördinn, skrifari, og svo kom Pétur baðvörður og Ó. Gunnarsson og menn ræddu af ákefð um bæjaheiti og vísbendingaspurninguna sem undirbúin hefur verið fyrir Formann til Lífstíðar í næsta sunnudagshlaupi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband