4.5.2014 | 16:05
Sundlaug lokuð
Þessi voru skilaboðin þegar skrifari kom til Laugar stuttu fyrir kl. 9 á þessum sunnudagsmorgni: "Sundlaugin er lokuð vegna of mikils klórmagns." Sundlaugargestir sem komu aðvífandi á sama tíma hurfu frá og settu stefnuna á Nes. Skrifari hugsaði sinn gang um stund, en ákvað síðan að fara á Nesið og hlaupa þaðan. Það kæmi þá bara í ljós hvort félagar hans kæmu líka.
Starfsfólk Laugar Vorrar mætti vera örlítið nákvæmara í orðavali þegar það kemur skilaboðum á framfæri við laugargesti. Það kom nefnilega í ljós að Sundlaugin var ekki lokuð sem stofnun, aðeins laugin sem menn synda í og sem skrifari stígur aldrei fæti sínum í. Þeim, sem komu á eftir skrifara til Laugar, var nefnilega hleypt inn, þ. á m. félögum Hlaupasamtakanna og gátu þeir klæðst hlaupafatnaði venju samkvæmt. Meira um það síðar.
Það er einmanaleg iðja að hlaupa á Nesi. Manni er mætt með fjandskap í Neslaug og laugargestir fitja upp á nefið þegar þeir ganga fram hjá manni, tvinnandi saman blótsyrðum af fáheyrðri fimi. Ég tíndi á mig spjarirnar í búningsklefa, en hagur minn vænkaðist þegar Örlygur Hálfdánarson, bókaútgefandi kom og áttum við gott spjall saman. Svo var bara spurningin hvað maður kæmist langt í dag. Það yrði bara að koma í ljós. Veður ágætt, sæmilega hlýtt, stillt og hugsanlega einhver rigning í kortunum.
Ákvað að hlaupa til höfuðborgarinnar og í Vesturbæinn. Þræddi íbúðagötur og stíga þar til komið var í Skjólin, fór með sjónum um hið forna Flosaskjól og loks inn á Ægisíðuna. Þar hafði ég ekki lengi hlaupið er ég heyrði háreysti að baki mér, sá þar kunnuglegan klæðaburð og fóta. Voru þar komnir félagar mínir og fóru hefðbundinn sunnudag kl. 9:10 og voru þessir mættir: Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur, Magnús, Tobba og Einar blómasali. Við urðum sem gefur að skilja fegnir að hitta hverir aðra og urðu fagnaðarfundir.
Það er gott að hlaupa í hópi, einn saman er maður ekki mikill hlaupari og leitar að fyrsta besta tækifæri til þess að stytta og hætta og halda til Laugar. En nú var skrifari kominn með félagsskap og ljóst að það yrði til þess að lengja hlaup. Einar blómasali heimtaði að heyra sögu þá er skrifari hafði lofað í föstudagssamtali þeirra. Skrifari varð við þeirri bón, sagan var stutt en skorinorð, upplýsandi og falleg.
Það var komið að Skítastöð og skrifari hafði einhver orð um að nú væri komið nóg og e.t.v. tími til þess að fara að snúa við. Ó. Þorsteinsson heldur vel utan um sína hjörð og sagði það ekki koma til greina að hverfa frá hlaupi hér, það yrði að minnsta kosti farið til Jósefínu í Nauthól. Ekki þýðir að deila við Formann til Lífstíðar og skrifari fylgdi hópnum áfram. Í Nauthólsvík var gengið og sagðar nokkrar fallegar sögur. Hér hefði hugsanlega mátt lauma sér úr hópnum og fara Hlíðarfót, en e-n veginn skipti það ekki máli lengur. Hlaupið var nánast hálfnað, líðan góð, heitur skrokkur og lýsið rann. Það var bara að halda áfram.
Nú var farið hefðbundið það sem eftir lifði hlaups, við frændur vorum eitthvað rólegri en þeir hinir og drógumst aftur úr, en þannig vill það verða þegar næg eru umræðuefnin. Farin Sæbrautin og Miðbær, Austurvöllur og Túngata. Upplýst að í tilefni þrjátíu ára afmælis Hlaupasamtakanna á næsta ári yrði efnt til keppni um bestu frásögnina, af hlaupum eða úr potti. Þó mátti skilja kátínu formanns svo að hann hefði nú þegar valið bestu söguna. En ekki er úr vegi að benda á að skrifari hefur á sinni skrá 8 ára samfellda frásögn af hlaupum með ýmsum uppákomum og er ekki fráleitt að sagnfræðingar Samtakanna leggist í lestur á fyrirliggjandi gögnum í leit að bestu sögunni.
Er komið var til Laugar átti skrifari enn ófarna leið á Nes, en Jörundur bjargaði honum með því að keyra hann þangað, ellegar hefðu þetta verið um 16 km í dag. Það var skolað af sér á Nesi, en að því búnu haldið til Laugar Vorrar og í Pott. Mættir Ó. Þorsteinsson, blómasali, Jörundur og svo bættust við dr. Einar Gunnar, Mímir og Baldur. Vísbendingaspurningar gengu á víxl með tilheyrandi svívirðingum og ásökunum um fáfræði.
Góður dagur að hlaupum í frábæru veðri.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.