2.5.2014 | 21:12
Hlaupið á bíl og umferðarmerki
Fáeinir hlauparar mættir til hefðbundins föstudagshlaups á Fyrsta Föstudegi: próf. Fróði, Þorvaldur, Denni og Ólafur Gunnarsson. Aðrir voru uppteknir við þjóðþrifastörf í þágu lands og lýðs. Eftir á var okkur sagt frá því að hersingin hefði lagt af stað venju samkvæmt niður Hofsvallagötuna - en ekki var ferð þeirra orðin gömul þegar glymur mikill kvað við: Þorvaldur hafði hlaupið á bíl, nánar tiltekið vörubíl, enn nánar tiltekið á spegilinn á þessum tiltekna vörubíl. Hávaðinn var slíkur að heyrðist um gervallan Vesturbæinn. Þorvaldur virtist að sögn viðstaddra nokkuð vankaður að loknu þessu samstuði. Félagar hans spurðu: "Þorvaldur, ertu vankaður?" Hann svaraði: "Já, ég er vankaður."
Upp úr þessu samstuði kviknaði á einhverri áru í Þorvaldi, það runnu upp úr honum brandarar óstöðvanda að sögn próf. Fróða, og muna menn ekki þá tíð að Þorvaldur hafi áður sagt brandara í samanlagðri hlaupasögu Samtaka Vorra. Mönnum var mjög brugðið. Þess vegna voru þeir þeim mun fegnari þegar hann hljóp á umferðarskilti stuttu síðar og hætti að segja brandara, varð normal, ef slíkt er hægt að fullyrða um meðlimi Óðagotsættar.
Nú voru nokkrir syndaselir mættir í VBL í sólskini og fallegu veðri, þ. á m. skrifari og Flosi, Denni kominn tilbaka eftir stutt hlaup út að Skítastöð. Þarna sátum við, dáðumst að stúlkunum, þróuðum með okkur góðan þorsta og biðum eftir félögum okkar. Við ræddum um góðan árangur körfuboltadrengjanna okkar í Vesturbænum, búnir að skila dollunni heim á rétta hillu og strákurinn hennar Möggu okkar meginhetjan.
Svo var haldið á Nes, á Ljónið hjá Hafsteini verti - enginn pantaði sér Benna, en þeim mun fleiri sem fengu sér bjór. Þarna komu saman Flosi, skrifari, prófessorinn, Denni, Ólöf, Þorvaldur, Jörundur, Ó. Gunnarsson - við skemmtum okkur við að rifja upp óheppni Þ. Gunnlaugssonar að hlaupum og alla árekstra sem hann lenti í á hlaupi dagsins og maður sá ofan í kokið á prófessornum þegar hann hló innilega að óförum þessa ágæta hlaupafélaga okkar. Sú var staðan þegar skrifari hélt heim á leið til þess að elda fyrir heimafólk. Í gvuðs friði.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.