Fyrsti Föstudagur í sumri - fagnað sigri í Víðavangshlaupi

Ný hefð varð til í sögu Hlaupasamtaka Lýðveldisins í dag: Fyrsti Föstudagur í sumri. Meira um það seinna. En fyrst ber að þakka hlaupurum Samtakanna sem héldu merki þeirra hátt á loft í Víðavangshlaupi gærdagsins og enduðu í þriðja sæti í flokkahlaupinu. Snorri, Frikki, G. Löve, Ragnar og S. Ingvarsson, hafið heila þökk fyrir frammistöðuna! 

Mættir til hlaups í dag, föstudag, hiti 11 gráður, stillt og bjart: próf. Fróði, Flosi, Þorvaldur, Magnús, Einar blómasali, Ólafur skrifari, Ingi og Kári. Í Brottfararsal kvartaði Einar yfir gamla dollaragríninu sem átti að fungera sem mælitæki og hann hafði sært út úr þeldökkum sölumanni í dollarabúð í Boston að viðlögðum eið um að koma aldrei aftur í verzlunina. Nú spurði hann viðstadda hvort þeir ættu ekki gamalt mælitæki sem þeir væru hættir að nota og gæti gagnast honum við að mæla hraða og vegalengdir á hlaupum. Hér blandaði skrifari sér í samræðurnar og spurði um tilgang slíkra mælinga. Blómasalinn brást forviða við og sagði: "Nú, til að vita hvað ég fer langt og hratt." Eins og það skipti einhverju máli!

Þeir lögðu saman þekkingu sína um mælitæki og voru eins og litlir drengir, nefndu týpur og tölur og skrifari var engu nær. Þeir sögðu hvað úrið þeirra gæti gert, "mitt sýnir fjórar tölur", "mitt sýnir tölu" og þar fram eftir götunum. Eru þetta örlög Hlaupasamtakanna að sitja uppi með einhverja tækjanörda sem hugsa fyrst og fremst um tækin sem mæla hlaupin - og hlaupin mæta afgangi!

Jæja, við biðum eftir síðustu mönnum, Þorvaldur án hlaupaskúa og Magnús hljóp undir bagga, reddaði gömlum Adidasskóm sem hann fann hjá varadekkinu í bílnum sínum. Og af stað lagði hersingin. Hægt og rólega. 

Á leið niður á Ægisíðu var flautað á okkur úr kampavínslitri jeppabifreið með skráningarnúmerinu R-158, þar var á ferð Formaður Vor, vakinn og sofinn yfir velferð menningar, sögu og bílnúmera í Vesturbænum. Við vörpuðum kveðju á foringja vorn.  

Fljótt varð vart við derring í sumum hlaupurum, þrátt fyrir að sumir þeirra hefðu sporðrennt fimm (segi og skrifa FIMM) flatbökusneiðum í hádeginu. Prófessorinn, Flosi og Einar blómasali settu upp hraðann, þrátt fyrir yfirlýsingar um að fara rólega í dag. En stefnan var sett á hefðbundið. Við hinir vorum rólegri. Á endanum fór það svo að við héldum hópinn Magnús, Þorvaldur og skrifari. Kári og Ingi voru sér á parti, en samt var Kári flottur, búinn að grennast. Einar spurði: "Kári, ertu búinn að grennast?" Þetta eru vondar fréttir fyrir skrifara, hann hafði í Útiklefa lýst yfir ánægju með að vera í hópi félaga með hæg efnaskipti.

Jæja, þarna siglum við áfram og skrifari bara flottur, finnur svitann brjótast út og þetta verður léttara með hverju hlaupinu sem hann raðar inn. Þetta er alltaf auðveldara með góðum félögum, ekki gæti maður gert þetta einn. Maggi talaði líka um þetta að það væru lífsgæði að eiga þess kost að hlaupa með góðum drengjum eins og okkur Þorvaldi og eiga uppbyggileg samtöl við okkur.

Jæja, við þraukuðum hlaup út í Nauthólsvík og þar var gengið stuttlega, og félagar okkar horfnir sjónum. Hlaup tekið upp af nýju, farin Hi-Lux brekkan, og svo langa brekkan og sú leið áfram hjá Kirkjugarði og um Birkihlið, Veðurstofu, Saung- og skák og um Hliðar og Klambra. Við drógum ekki af okkur, orðnir vel heitir, Hlemmur og niður á Sæbraut. Ekki er búið að skrúfa frá vatnshönum þótt komið sé sumar.

Það var steðjað vestur úr, hjá Hörpu, Höfn og vestur að Slipp, upp Ægisgötu og niður Hofsvallagötu. Við Magnús áttum síðasta spölinn saman.

Að hlaupi loknu söfnuðust hlaupnir og óhlaupnir félagar saman í Nýjapotti, Helmut og dr. Jóhanna, auk próf. dr. emeritusar Einars Gunnars Péturssonar, og var rætt um árshátíð Hlaupasamtakanna 2014, sem væntanlega verður að loknum síðasta legg Reykjavegarins, einhvers konar sammenkomst í Garðinum, meira um það seinna. Kári fékkst ekki til að segja söguna af ljóninu og apanum.

Fyrsti Föstudagur sumars haldinn hátíðlegur á Rauða Ljóninu. Mættir: próf. Fróði, Þorvaldur, skrifari. Horfðum á körfuboltaleik við hlið Jakobs Möllers hæstaréttarlögmanns og KR-ings. Áttum gott spjall saman þar sem ég útskýrði söguna af ljóninu og apanum sem Einar reyndi að segja þeim Flosa í hlaupi dagsins, en tókst ekki betur en svo að prófessorinn, alveg yfir meðalgreind, skildi ekki söguna. Í gvuðs friði.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband