Hlaupasamtökin eru föst í hefðinni

Ævinlega er hlaupið á miðvikudögum frá Vesturbæjarlaug kl. 17:30. Á þessu var engin breyting á síðasta vetrardegi 2014. Þó virðist sem páskarnir hafi ruglað einhverja í ríminu, því að einungis voru fjórir hlauparar mættir á lögbundnum tíma: próf. Fróði, Magnús Júlíus, Ólafur skrifari og Guðmundur Löve. Guðmundur stefnir á Kaupmannahafnar-maraþon 18. maí og því búinn að toppa og farinn að trappa niður. Hann bað um rólegt. Ekki stóð á okkur Magga, við erum báðir eymingjar og fúsir að hlaupa hægt og stutt hvenær sem það er í boði. Jafnvel prófessorinn lagðist ekki gegn því, en svo er annað mál hvort hann skilji "hægt og stutt" sama skilningi og við dauðlegir. 

Jæja, klukkan orðin 17:30 og við að leggja í hann í 13 stiga hitamollu þegar gamli barnakennarinn dúkkaði upp og hljóp orðalaust í Útiklefa með tuðru sína.  Einnig varð vart við Inga, en óljóst hvort hann óskaði eftir að beðið væri eftir honum. Við fjórir sómar Samtaka Vorra ákváðum að hér væru ekki séríösir hlauparar á ferð og lögðum af stað. Það var rætt um Hlíðarfót - prófessornum þótti það heldur stutt, nýbúinn að fara 37,5 km frá heimili sínu og um Heiðmörk, en hann kom ekki á framfæri mótmælum. En við lögðum af stað með magana fulla af góðum ásetningi.

Þetta var erfitt fyrir feitlaginn hlaupara í endurkomu. Þeir hinir sýndu mér þann sóma að leyfa mér að hanga í sér. Meira að segja Guðmundur Löve spurði á einum stað hvort ekki væri hefð fyrir göngu hér. Það var eftir að Magnús Júlíus hafði hitt hjón með barnavagn og hann heimtaði að fá að kíkja upp í væntanlegan skjólstæðing sinn þótt í vöggu væri. Svo var haldið áfram. Það var hér sem Snorri Gunnarsson dúkkaði upp og var upplýstur af G. Löve að hér væri hæg lest á ferð. Skrifara heyrðist Snorri segja: "Come on! Ertu ekki að djóka í mér?" - eða eitthvað í þá veru. Enda settu þeir tveir fljótt upp tempóið og yfirgáfu okkur hina.

Prófessorinn hékk enn í okkur Magga og virtist njóta þess að vera samferðamaður okkar. Við höfum oft náð góðum samtölum okkar í millum í gegnum tíðina og því upplifði maður þessa klassísku stund að vera á ferð með góðum félögum, hreyfandi sig, reynandi á sig, svitnandi og þar fram eftir götunum. Það skal viðurkennt að fyrstu 4 km reyndust skrifara erfiðir, hann var þungur á sér, andstuttur, en hafði ekki nægilega ástæðu til þess að hlaupa ekki eða fara að ganga og ákvað því að hanga í Magga.

Við komum í Nauthólsvík og þar er gert lögbundið stopp. Við upplýstum prófessorinn um að við myndum fara Hlíðarfót, honum þótti það helst til stutt og hélt áfram og setti stefnuna á Stokk. Við Maggi beygðum af og fórum inn á stíginn hjá HR. Við gengum ekki lengi en tókum upp hlaup og þá sagði ég Magga fallega dæmisögu af apa og ljóni sem myndi ganga vel í Kirkjuráðið, sögu sem Kári sagði mér og er upplýsandi um völd fjölmiðlanna í nútímasamfélagi.

Hér var skrifari orðinn heitur og léttur og það var hlaupið sleitulaust og án tafa rakleiðis til Laugar, framhjá Gvuðsmönnum, um Hringbraut, hjá Akademíunni, Þjóðarbókhlöðunni og þá leið til Laugar. Hér sannaðist sem endranær að þegar menn eru komnir af stað og búnir að hita skrokka sína upp þá er eftirleikurinn auðveldur. Þetta mætti ónefndur blómasali sem best tileinka sér, hann hefur ekki sést lengi að hlaupum og Halldór Bergmann er farinn að kvarta yfir fjarveru hans í morgunhlaupum þrátt fyrir yfirlýstan góðan ásetning. 

Það var tómlegt í Laug. Við teygðum lítillega, stuttur Pottur og bara útlendingar, en ekki kátir sveinar að ræða málefni líðandi stundar. Hér er þörf á félagslegu átaki til þess að forða Samtökum Vorum frá tortímíngu. Því er tímabært að huga að árlegri Árshátíð Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Þá er spurt: vill fólk halda sig við Viðey eða er vilji til þess að kanna aðra kosti? Kona spyr sig.  

Er skrifari hafði sig á brott var prófessorinn að koma til baka af hröðu 16 km hlaupi og Flosi ekki enn kominn tilbaka, en þeir giskuðu á að hann gæti hafa farið Þriggjabrúa.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband