6.9.2013 | 21:22
Jörundur
Jörundur Guðmundsson er einhver ágætasti hlaupari sem hleypur með Hlaupasamtökum Lýðveldisins, landskunnur fyrir þrautseigju og úthald verandi kominn á áttræðisaldurinn. Nýlega lenti hann í veikindum sem slógu hann út af laginu svo að hann var fjarri hlaupum og þátttöku í starfi Samtaka Vorra um nokkurt skeið. En þar sem nokkrir ágætir félagar vóru saman komnir í Brottfararsal Sundlaugar Vorrar í dag kl.16:30, dúkkaði ekki Jörundur Svavar Guðmundsson upp alklæddur til hlaupa. Kvaðst hafa farið 2 km um daginn, og svo 3 km - og ætlaði 4 km í dag. Eðlilega var honum fagnað ákafliga og hétu menn því að veita honum félagsskap alla þá leið sem hann köri að hlaupa.
Aðrir mættir: Flosi, Einar blómasali, Ólafur heilbrigði, Denni og skrifari. Okkur voru vissulega sett ákveðin mörk þar eð Laug myndi loka kl. 1800 vegna skemmtanahalds starfsmanna. Það lá í augum uppi að aðeins yrði unnt að fara stutt og vera snöggur að því. Rætt var um Nes og Denni mælti með öfugum hring um Nes vegna vindáttar. Við hinir létum það eftir honum ekki það skipti neinu máli þar sem það var eiginlega enginn vindur. Dólað af stað á rólegu nótunum, en þó ekki fyrr en skrifari upplýsti um tilburði Magnúsar Júlíusar fyrr um daginn er hann upphóf afsakanir fyrir því að sleppa hlaupi með litla karlinn gargandi inn í eyrað á sér.
Fórum niður í Skjólin og þaðan vestur úr, við Denni um Sörlaskjólið, en þeir hinir Faxaskjól. Þeir hinir náðu e-u forskoti, sem skipti okkur engu máli, því að við hlaupum fyrir heilsuna, andlega sem líkamlega, ekki fyrir tíma eða vegalengdir. Snúið inn í Lambastaðahverfið og svo út á Austurströnd. Þar var snúið í suður og farin leiðin út á Lindarbraut, hávaðasamræður alla leið eins og vænta mátti þegar Denni átti í hlut. Við sáum þá hina framundan.
Á Lindarbraut var gengið, enda löng hefð fyrir því að gengið sé upp mishæðótt landslag. En eftir að jafnsléttu var náð var haldið áfram og ekki linnt fyrr en komið var til Laugar. Fórum Keilugrandann og Frostaskjólið hjá KR heimili til Laugar.
Náðug stund í Potti, Kári mætti. Rætt um kvótakerfið og veiðigjald og Kári fór. Í Útiklefa var búið að króa Ingvar E. af og hann beðinn um að gera grein fyrir nýjum kúr, e-r 5:2 kúr, sem gengur út á að menn svelta sig heilu og hálfu vikurnar. Hér gerðust þeir Einar og Kári miklir hreinlífismenn, úttöluðu sig um mikilvægi þess að Vesturlandabúar hreinsuðu líkami sína af eitri því sem menn setja í sig með neyslu ýmiss konar matvöru. Einar var orðinn eins og gvuð í framan og sagði: "Já, ég held að það sé manninum eiginlegt að fasta." Í þeim töluðum orðum varð honum litið á skrifara Hlaupasamtaka Lýðveldisins - og svo sprakk andlitið á honum út í tryllingslegum hlátri sem benti til að fullyrðingin gæti hugsanlega átt við um einhverjar abstrakt persónur - en ekki hann.
Gott hlaup og fagurt, næsta reglulega hlaup er á sunnudag kl. 10:10 - og gangi félögum okkar í Brúarhlaupi allt hið besta í haginn í vindgnauðinu í Flóa. Í gvuðs friði. Skrifari.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.