28.6.2013 | 22:51
Gömul kona dettur, eða var henni hrint?
Þar sem skrifari Hlaupasamtakanna er seztur í bifreið sína fyrir utan Melabúð Friðriks hafandi innhöndlað kostinn mæta þar hlauparar askvaðandi, óðamála og nánast slefandi af skelfingu, Magnús tannlæknir og Jörundur prentari. Þeir plöntuðu sér fyrir framan bíl skrifara og heimtuðu að ná tali af honum. Skrifari er maður fólksins og alþýðlegur í viðmóti og ævinlega reiðubúinn að hlýða á vanda annarra manna. Þeir segja sem svo að fjórir menn hafi haldið frá Laug fyrr um daginn: Benzinn, próf. Fróði, og þeir tveir, Jöri og Maggi.
Segir nú ekki af ferð þeirra, utan hvað þeir tveir fyrstnefndu voru öllu sprækari og keikari, héldu hraðara tempói og voru þarafleiðandi á undan. Magnús og Jörundur horfðu á þá fyrrnefndu þar sem þeir mættu gamalli konu, sem féll við og lamdi andliti sínu í malbikaðan hlaupastíginn, braut tvær tönnur og blóðgaðist öll. Ekki báru þeir við Benz og Fróði að hjálpa konunni, létu sem þeim væri málið óviðkomandi og hlupu áfram. En slíkir öðlingar sem þeir eru, Magnús og Jörundur, þá reistu þeir konuna við, liðsinntu henni á alla lund, buðust til að lána hárband Jörundar til að þurrka blóð (sem var afþakkað), buðust til að skipta á skóm við hana (hún var á töflum, en vildi ekki þiggja hlaupaskó Jörundar). Og þannig frameftir götunum. Buðust til að aka henni heim, en hún treysti sér til að klára ferð sína.
Hér er vel lýst eiginleikum og geðslagi manna. Prúðmenni á borð við Jörund og Magnús halda á lofti heiðri Hlaupasamtakanna, dólgar eins og Benzinn og Fróði koma óorði á Samtökin.
Jæja, nú gerist það að skrifari heldur til Laugar. Sest þar í Pott og bíður þess sem verða vill. Það sást til dr. Einars Gunnars, Maggi henti sér í Laug, en hvörgi bólaði á Jörundi. Er skrifari hafði setið um stund í Potti dúkkaði upp kunnuglegt, búlduleitt andlit og tilheyrði þekktum blómasala í Vestbyen. Við hæfi þótti að hreyta í hann ónotum og kommentera á vaxtarlag. Hann virtist meðvitaður um aukningu í líkamsumfangi. Við tók samtal um lífið í Gvuðseinalandi, morgunverði á 25 dollara með beikoni, eggjum, pönnukökum og sýrópi.
Svo kom dr. Einar Gunnar í Pott, þar á eftir frú Helga Zoega, Stefán Sigurðsson verkfræðingur. Svo Benz og lét illa, en þegar prófessor Fróði sýndi sig á Laugarbakka stóðu skrifari og blómasali algerlega samtímalega upp úr Potti og létu sig hverfa.
Næsti föstudagur er Fyrsti Föstudagur hvers mánaðar. Þá mun skrifari bjóða upp á næringu fyrir illa haldna hlaupara að heimili sínu, en hver taki þó með sér drukk. Þá verður skrifari grasekkill og því svigrúm fyrir vín og villtar meyjar!
Gleðjumst!
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.