Endurkoma skrifara

Eins og fram kemur í síðasta pistli skrifara var hlaupið í Uppsölum. Þess var getið að að hlaupi loknu gekk skrifari inn í staðinn og tók það um klukkutíma. Um kvöldið var svo staðið í eldahúsi í eina tvo tíma við að elda ítalskar kjötbollur. Afleiðingar þessa aktívitets létu ekki á sér standa: knén á skrifara bólgnuðu út og mátti hann sig vart hræra af kvölum. Hann kom sumsé stokkbólginn með vélinni heim frá Stokkhólmi á sunnudaginn. 

Hann mætti til Laugar í dag rétt fyrir sjö og vænti þess að vera fagnað af félögum sínum hlaupnum. En það var öðru nær. Honum mættu hæðnishróp og niðurlæging og töldu menn víst að heltan væri uppgerð. Spökúlasjónir fóru af stað um að það þyrfti að taka fótinn af skrifara við öxl. Blómasalinn var ekki mættur og sögðu menn að hann lægi á bæn, biðjandi himnafeðga um að líkna skrifara og lina bólgukvalir hans. Svona er hæðst að fólki!

Í Potti var aðallega rætt um árshátíðina 11. maí. En einnig var rætt um nýja afrekshóp Samtaka Vorra, sem þau fylla Gomez, Pedro, Juanita og Federico. Þau eru að leita að sponsorum og leitað hófanna hjá Mjólkursamsölunni. Fram kom hugmynd um að stofna sérstakan hóp innan Samtakanna, Biggest Loser, og setja af stað markvissa baráttu þyngstu hlaupara fyrir varanlegum líkamslétti.

Er heim var komið tók þó steininn úr þegar kona skrifara var að horfa á víðtal í sjónvarpi við fótalausa konu sem fékk hlaupafætur og var að prófa þá. Varð henni að orði: "Ja, það er ekki mikið mál að vera fótalaus!" Huggun það þegar mönnum er hótað fótaskorti.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband