Hlaupið á sléttum Uppsalaauðs

Skrifari er ekki dauður úr öllum æðum. Hann notar hvert tækifæri sem gefst til þess að hnýta á sig skúa og leggja braut undir sóla. Nú var hann staddur í Svíaríki í mikilvægum embættiserindum, en að fundi loknum var stefnan sett á Uppsali, þann mikla menningar- og sögustað. Hér mun Snorri hafa verið á ferð á sínum tíma og lýsir fundi konungs með bændum þar sem Þórgnýr Þórgnýsson átti merkilega rispu og tuktaði kóngsa til með eftirminnilegum hætti, en sænskir kóngar, að Gústafi Adólf undanskildum, hafa ævinlega verið óttalegir vinglar. Sú sena útspilar sig þar sem nú heitir Gamla Uppsala og státar af konungagröfum frá 7du öld. Heimskringla, sumsé, Ólafs saga helga.

Jæja, þar sem skrifari vaknar harla glaður í bragði að morgni dags býr hann sig til hlaupa, hafandi snætt morgunverð og drukkið lögmæltan skammt af kaffi. Það er lagt upp í sterku sólskini og 12 stiga hita, svalandi golu á norðan. Stefnan sett austur úr frá Malma Backe og hlaupið beint af augum. Brátt kemur afleggjarinn að Gottsunda þar sem skrifari villtist með eftirminnilegum hætti hér um árið og var farið að dimma. Fór í eintóma hringi þar til hann loks fann veginn sem liggur inn í bæinn og að Dag Hammarskjöldsvegi. Farið bara rólega og engir útúrdúrar. Svo þegar cirka fimm kílómetrar voru að baki (að skrifara fannst, en hann á ekki Garmin-úr eins og hinir hlaupanördarnir), var einfaldlega snúið við og sama leið farin tilbaka. Einfalt. Góð hreyfing, nægur sviti, svalandi bað á eftir og svo var haldið í staðinn á eftir.

Alveg nauðsynlegt að hreyfa sig þegar menn eru á fundum dagana langa, eða sitjandi í flugvélum milli höfuðborga Evrópu. Vona að félagar mínir finni upp á e-u að gera þótt skrifari sé ekki á landinu. Og að Bjarni drattist til að spurja Kokkinn um prísinn á kvöldverðinum á árshátíðinni. Í gvuðs friði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband