6.2.2013 | 20:35
Allt á réttri leið
Furðu má hann heita værukær, Jörundur prentari, maður sem ætlar að standa fyrir Fyrsta Föstudegi n.k. föstudag og mætir ekki í hlaup dagsins til þess að búa sig undir verkefnið andlega. En á þessum ágæta miðvikudegi var glettilega harðsnúinn hópur mættur: próf. dr. Fróði, gamli barnakennarinn, dr. Jóhanna, Pétur Einars, Gummi Löve, Heiðar, Þorvaldur, Benzinn, Einar blómasali, Hjálmar, Ólafur skrifari, Maggi, Frikki og Rúna. Í þetta skiptið má heita að við höfum lagt upp saman með einhvern snefil af sameiginlegum ásetningi um hlaup. Veður ágætt, hiti 4 stig, einhver vindur.
Fljótlega varð þó hefðbundin skipting, þekktir hlaupagikkir fremst, meðalhlauparar næst, skrifari þar á eftir og allra síðust Rúna og blómasalinn. Ástandið fer batnandi með hverju hlaupi, þol og þrek eykst og vellíðan í sama mæli. Hlaup lengjast og sól hækkar á lofti. Þessi hlaupari hljóp af augum og yrði kylfa að ráða kasti um hvert hlaupið yrði í dag. Áður en maður vissi af blasti Nauthólsvíkin við augum og það sást til lakari hlaupara beygja af inn Hlíðarfótinn. Skrifari tók ekki í mál að hætta og setti stefnuna á Flanir. Fyrir framan hann mátti greina Fróða og Flosa og líklega einhvern annan. Að baki beygði Blómasalinn af og hélt á Hlíðarfót, afar þungstígur og hægur.
Hlaupið út að Kringlumýrarbraut og upp Suðurhlíð. Skrifari í þungum þönkum yfir ástandinu í Lýðveldinu og gleymdi því að verða þreyttur, en hljóp sem leið lá alla brekkuna án þess að blása úr nös, alla leið upp að Perlu. Þar er heimilt að ganga stuttan spöl, en svo er bara tekið strikið niður Stokk, hjá Gvuðsmönnum og Hringbraut tilbaka til Laugar. Furðu áreynslulítið og árangursríkt hlaup. Góð tilfinning er komið var á Plan. Innandyra var blómasalinn að teygja. Eftir hvað veit ég ekki.
Aðrir hlauparar voru svo seinir í dag að Skrifari var aleinn í Potti með hugsunum sínum. Í Útiklefa talaði Hjálmar eitthvað um Kársnes og spretti. Það mun bíða enn um sinn að Skrifari fari í slíka leiðangra. Að sama skapi mega menn fara að búa sig undir Fyrsta og að hlakka til.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Athugasemdir
Frábært blogg. Blómasalinn er í aðalhlutverki í þessum pistli og er það vel :)
Heiðar Halldórsson (IP-tala skráð) 15.2.2013 kl. 23:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.