Einar blómasali verður sér (og okkur um leið) til skammar

Í hlaupi dagsins dró Einar blómasali mikla skömm yfir Hlaupasamtökin. Meira um það í pistli dagsins. Tildrög máls eru þau að í dag kom hópur hlaupara saman í Vesturbæjarlaug til þess að renna skeiðið. Fyrst er þar til að taka að Skrifari kemur í Útiklefa og finnur þar fyrir Blómasalann og Leikara Lýðveldisins. Einar er að reyna að segja sögu af veikri konu, en fer svo vitlaust með öll orðatiltæki að nauðsynlegt reyndist að leiðrétta hann nokkrum sinnum. Við það fipaðist Einar í frásögu sinni og kvartaði yfir því að geta ekki lokið sögunni. Svo kom gamli barnakennarinn og blandaði sér í málin.

Aðrir mættir: prófessor Fróði, Magnús, dr. Jóhanna, Heiðar, Gummi Löve, René, svo sást Jörundur renna í hlað um það bil sem menn lögðu upp. Magnús staldraði við og beið eftir honum, aðrir hirtu ekki um það. Talað um Þriggjabrúa, Kársnes, Suðurhlíð, Hlíðarfót, allt eftir smekk og getu. Lagt upp á rólegu nótunum.

Veður þolanlegt, fjögurra stiga hiti, einhver vindur og snjóél. Maður er eiginlega hættur að þekkja fremsta fólkið, það hleypur aldrei með okkur aumingjunum. Aftastir hlupu René, Fróði og Skrifari. Blómasalinn og barnakennarinn náðu að hanga í þeim hinum inn í Nauthólsvík, en ekki söguna meir.

Í Skerjafirði kom Rúna hlaupandi fram úr mér. Stuttu síðar kom Frikki hlaupandi fram úr mér. Í Nauthólsvík beið prófessorinn eftir mér, en René hélt áfram í humátt á eftir þeim hinum. Við Gústi fórum Hlíðarfót, vorum skynsamir í dag enda báðir á batavegi eftir meiðsli. Rætt um aðstæður á vinnustöðum okkar og verkefnin sem við göngum í. Farið hjá Gvuðsmönnum og Hringbrautin tilbaka.

Frá því var sagt að þeir héldu þrír á Þriggjabrúa, Blómasalinn, gamli barnakennarinn og René. Þau hin fóru á Kársnes. Ekki vildi betur til en svo við Fram-heimili að Blómasalinn flaug með miklum bægslagangi og baðandi út öllum öngum á hausinn, rétt við inngöngudyrnar og sægur af Fram-stelpum innandyra sem skellihlóu að tiltækinu. Létu þeir svo um mælt, Flosi og René, að aldrei á samanlagðri ævi sinni hafi þeir skammast sín eins mikið og þegar Blómasalinn lá emjandi í götunni. Hann var skafinn upp úr grjótinu og reynt að tjasla honum saman svo að ljúka mætti hlaupi. Má segja að skömm Samtaka Vorra hafi aldrei verið meiri en þegar Blómasalinn laut í gras fyrir Fram-stelpum á táningsaldri.

Þar sem Skrifari og prófessor Fróði standa og teygja í Móttökusal Laugar Vorrar koma þeir askvaðandi Magnús tannlæknir og Jörundur. Jörundur er oft óðamála og fullur ofstækis í lok hlaupa. Hann hrópaði að hann ætti eingöngu einn vin, einn vin (hann er farinn að endurtaka sig eins og Davíð Oddsson). Sá vinur heitir Magnús tannlæknir. Magnús beið nefnilega eftir honum við upphaf hlaups því að Jörundur mætti í hlaupafötum, tilbúinn að hefja hlaup. Við skiptumst á hefðbundnum ónotum þarna á meðan við teygðum og fórum með gamanmál. Jörundur var svangur og úrillur, enda hafði konan ekki hirt um að gefa honum að borða frá því um morguninn. Svo mætti Benzinn á svæðið óhlaupinn, en með finnska vinkonu sem hann kynnti fyrir öllum.

Pottur var bara flottur. Þetta er í fyrsta skipti í langan tíma sem Skrifari á gæðastund í Potti með vinum sínum. Ósk var mætt fársjúk af flensu sem hún reyndi að losa sig við í gufubaði. Svo komu hlauparar hver af öðrum. Ákveðið að fresta Fyrsta Föstudegi hvers mánaðar til 8. feb. þar eð bæði prófessorinn, Skrifarinn og Magnús eru uppteknir á föstudag. En þá verður Fyrsti annað hvort hjá Blómasala eða Jörundi. (Nú er ég að gleyma einhverju sem Fróði sagði mér í aaaaaaalgjörum trúnaði og mátti ekki fara lengra - en í blogg.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband