Kristilegir bræður hlaupa saman

Meðlimir Hlaupasamtaka Lýðveldisins eru sumir hverjir kristilega þenkjandi. Um það fjallar pistill dagsins. Á mánudegi er oft erfitt að rífa sig upp í hlaup. Það gerðu þó eftirtaldir: Einar blómasali, Ólafur skrifari, Flosi, Magnús, dr. Jóhanna, Karl Gústaf, Guðmundur Löve, Heiðar og Þorvaldur. Hlaupið á Nes í eilítið skárri færð en í gær. Skrifari skilinn eftir þegar í upphafsskrefunum. Frikki Meló bættist í hópinn við Melabúð.

Þetta var einmanalegt. Í einmanaleik sínum samdi skrifari fyrirsögn á frásögn dagsins: Alltaf einn, Einsemdin er hlutskipti mitt o.s.frv. En er komið var í Ánanaust og stefnan sett á Nes gerðist undrið: Þorvaldur sneri við og sótti skrifara og Maggi beið álengdar, auk þess sem Kalli gerði sér far um að slá sér í hóp hinna kristilega þenkjandi meðbræðra skrifara. Hér rifjaði skrifari upp línurnar gullvægu: "Gvuð á margan gimstein þann..." o.s.frv. En hið nýja hugarfar entist ekki lengi, áður en langt var liðið voru þeir horfnir og settu stefnuna fyrir Seltjörn, meðan skrifari beygði af við Lindarbraut og fór stystu leið tilbaka.

Þetta var erfitt framan af, enda skrifari búinn að bæta vel á sig kílóunum, en er á leið hlaupið varð það auðveldara og sá skrifari eftir því að hafa ekki farið lengra. Nesvegurinn steinlá. Er komið var á Plan dúkkaði blómasalinn þar upp og hafði farið stutt. Kvaðst þurfa að fara heim að hlýða á Lýðveldisfréttirnar. Í Potti var rætt um fiskrétti og gerðist umræðan svo áköf að einn sundgesta forðaði sér burtu segjandi að hann væri orðinn svangur.

Að hlaupi loknu er spurt: hvar var prófessor Fróði? Hvar var Benz? Jörundur? Helmut? Eru menn almennt þeirrar skoðunar að þeir séu undanþegnir hlaupum? Hér þarf leiðréttingar við. Næst: miðvikudagur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband