Prófessor Fróði mætir til hlaupa á ný eftir heilt ár af depurð

Dagurinn lofaði ekki góðu um hlaup, vestan ofsaveður og kalt. Þó voru menn steigurlátir í skeytum dagsins og lýstu yfir góðum ásetningi um hlaup. Af þeim sem þar kvöddu sér hljóðs mættu eftirtaldir: skrifari, gamli barnakennarinn og Gummi Löve. Aðrir mættir: Magnús, Ragnar, Rúna og svo prófessor Fróði eftir árs fjarveru. Eru tilgreindir hlauparar því réttnefndir KARLMENNI. Aðrir mega sólskinshlauparar heita.

Rúna var spurð í Brottfararsal: "Hvurnig er með hann Frikka? Er hann maður eða mús?" "Hann er mús," sagði Rúna. "Og hvar er hann?" "Hann er í músarholunni sinni," svaraði Rúna að bragði. "Væntanlega að ígrunda sín músarholusjónarmið," var sagt og var efnið afgreitt með því. Það sást til Friðriks læknis, en hann var bara á leið í Pott, ekki hlaup.

Dagurinn var merkilegur fyrir það að félagi okkar, prófessor Fróði, var að mæta til hlaups með Hlaupasamtökunum í fyrsta skipti síðan í október 2011. Síðustu tólf mánuðir hafa verið honum ein löng þrautaganga: fyrst meiðsli í hné sem kölluðu á aðgerð; þegar gróið var um heilt og fyrir lá að hefja hlaup af nýju sá hann grjótvöluna ofan af reiðhjólinu í Sviss og paníkkeraði, greip í allar bremsur á 50 km hraða og flaug á hausinn og brotnaði lífshættulega á höndum og fótum. Nú var allt orðið gott og tímabært að fara að hreyfa skankana.

Menn tóku vel móti prófessornum og margir heilsuðu honum. Steinunn í afgreiðslunni tilkynnti öllum sem heyra vildu að Ágúst Kvaran væri mættur á ný til hlaupa. Hann var svo klæddur að hann var í svörtum hlaupagalla og á rauðum hlaupaskóm með nýtt Garmin-úr sem hann kunni ekki á. Hann bar sig afar illa og hafði þungar áhyggjur af hlaupi dagsins. Við hugguðum hann með því að við myndum bara fara stutt, Hlíðarfót eða svo. Hér helltist angistin yfir prófessorinn og hann sagði: "Er það ekki óþarflega langt?" Hér urðum við svolítið hissa, því að það eru hátt í 20 ár síðan Skátarnir skófu hann Ágúst okkar upp eftir 9 km hlaup í Laugardalnum.

Málamiðlunin var að fara upp á Víðirmel, út á Suðurgötu og austur í Skerjafjörð að strætóskýli, þaðan vestur úr. Þessi áætlun var skynsamleg því að það var erfitt og leiðinlegt að hlaupa í dag, menn þungir á sér og lítið skjól að hafa. Þarna kjöguðum við gömlu félagarnir, Gústi, Flosi, Maggi og skrifari, Gummi og Ragnar farnir í spretti og Rúna týnd. Við börðumst við storminn í Skerjafirði og inn á Ægisíðu, en fórum svo aftur inn á Suðurgötuna og um bakgarða 107 tilbaka til Laugar. Svo til alla leiðina, heila 6 km, kvartaði prófessorinn yfir hraðanum, sem var jafnaðarlegt 6 mín. tempó.

Pottur yljaði. Þangað mætti Jörundur og kvaðst vera meiddur. Talaði um golfkúlu sem einhver hefði grýtt í sig á Nesi svo hann féll við og laskaðist. Nú þegar prófessorinn er mættur aftur fara hlaup að færast í eðlilegt horf og vantar bara Gísla til að setja punktinn yfir i-ið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

rétt er, ég steig á golfkúlu og meiddist illa á ökkla.

jörundur (IP-tala skráð) 11.9.2012 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband