18.4.2012 | 20:46
Síðasta hlaup vetrarins - þvílík hamingja!
Fámennt í hlaupi dagsins, síðasta dag vetrar, sem var fagur dagur: sól, bjart, tiltölulega stillt og allhlýtt, 8 stiga hiti. Þó lúmskt. Mættir: Bjössi, Flosi, skrifari, Maggi, Gummi, dr. Jóhanna og Snorri. Blómasalinn sást sitjandi úti í bíl með símann í hnefanum, trúlega að ljúka viðskiptum við fjarlægar álfur. Hann lét viðskiptin ganga fyrir hlaupum. Við biðum ekki. Lögðum í hann. Mættum Frikka Meló sem flautaði á okkur. Haldið niður á Ægisíðu.
Við Maggi einsettum okkur að fara Suðurhlíð hægt. Þvílík þyngsli á skrifara! Öndun þung og hröð, engin smá átök að flytja þennan 92,4 kg skrokk áfram, drösla honum áfram, liggur mér við að segja. En hér skyldi ekki gefist upp. Nú var að duga eða drepast. Og fyrr skyldi ég dauður liggja en gefast upp. Sem betur fer hafði ég félagsskap af Magga og Flosa, þeir virtust ekkert vera að flýta sér. Hinir löngu farnir, þetta er fólk sem talar um hvoru megin við 3:30 það lendir í maraþonum! Við, þessir vinalausu aumingjar, við erum sáttir við að ljúka maraþoni yfirleitt.
Jæja, það var fallegt veður og ástæða til þess að gleðjast yfir því að á morgun brestur á með sumri, dag tekur að lengja og farið að birta upp úr 5 á morgnana, þegar menn eru að tínast á fætur í Vesturbænum. Yfir þessu glöddumst við Magnús sérstaklega, menn morgunárrisulir, mættir í sund kl. 6:30 dag hvern.
Þetta var erfitt púl, því var ekki að neita. Fyrstu 4-5 km voru erfiðir, það var puðað og haft fyrir hlutunum, en erfiðið skilaði árangri áður en yfir lauk. Á Flönum var líðanin strax betri og við vorum sprækir neðan við Kirkjugarð. Þar rak á fjörur okkar góðan félaga, Inga Boga Bogason, aðstoðarskólameistara Borgarholtsskóla, mikinn KFUM-vin Magnúsar, söngfélaga og Vatnaskógs með öðru. Miklir fagnaðarfundir urðu með vinum og vináttan efld með góðu atlæti. Síðan héldu menn áfram. Við stóðum við ásetning okkar að fara Suðurhlíð.
Brekkan er á við Boggann, erfið. En við þraukuðum, tókum okkur gönguhlé er upp var komið, en hlupum svo áfram upp brekkuna að Perlu. Þar var aftur genginn smáspölur og svo ekki eftir það. Þvílík hamingja að ná upp góðri stemmningu og góðu tempói eftir að hafa verið í mínus um lengri tíma. Við tókum Hringbrautina með trompi, fórum hjá Háskólaakademíunni og þá leið tilbaka. Vorum ánægðir með gott hlaup.
Hittum Kára á Plani. Skipst á brandörum, m.a. þessum: Læknirinn við flugstjórann: "Hvenær höfðuð þér síðast samfarir?" "1950." "Er svo langt síðan?" "Læt ég það vera, klukkan er nú bara 20:20." Svo sagði Magnús brandara sem er líklega ekki hafandi eftir sökum pólitískrar kórvillu, en skrifari býðst til að segja völdum félögum ef eftir er leitað.
Fámennt í Potti, Kári sagði sögur frá Ástralíu. Er við vorum að fara upp úr kom blómasalinn, óhlaupinn með öllu og kunni ekki að skammast sín.
Á morgun opnar Laug kl. 9 - ástæða til að vekja athygli á því. Við kveðjum vetur og minnumst hans sem snjóþungs, óveðursvetrar sem bauð lítt upp á hlaup. Fögnum sumri og þeim ævintýrum sem bíða okkar á hlaupum og gönguferðum. Í gvuðs friði.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.