Gamlinginn sem skreið út um gluggann og - hljóp

Fjögurra stiga frost í Útiklefa, en menn létu það ekki hindra sig í að hlaupa. Mættir: skrifari, Þorvaldur, Benzinn, Maggi, Kári, Helmut, dr. Jóhanna, Maggie, Heiðar, Guðmundur, Magga, Haraldur, Frikki og við bættust Ragnar og Jóhanna Ólafs (að ég tel). Athygli vakti að hvorki blómasalinn né Flosi voru mættir og menn skulu nú ekki einu sinni nefna Trabant-klúbbinn á nafn. Einhverjir höfðu í flimtingum nafn bókarinnar sem sló öll met á jólum og hvort hún ætti nokkuð við um ónefndan prófessor í Kópavogi og hvort honum hefði tekizt að troða með sér göngugrindinni út um gluggann og svona. Menn eru svo kvikyndislegir.

Magga lagði til að við færum Víðimelinn út að Drulludælu, en við þessir formföstu og íhaldssömu ákváðum að hunza tilmæli hennar, fórum bara það sem við erum vanir að fara, sumsé Ægisíðuna í myrkri. Magga stóð og öskraði á eftir okkur en við létum sem við heyrðum ekki í henni. "Við" voru skrifari, Maggi, Kári, Benzinn og Þorvaldur. Mættum Ragnari í myrkrinu og hann virtist ekki vita hvort hann væri að koma eða fara, svo brugðið var honum að sjá þennan mannskap á hlaupi, líkt og hann tryði því ekki að betra væri ekki í boði. Hann þeysti af stað út á Nes í leit að einhverju skárra.

Nú var bara spurningin hvort búið væri að ryðja nægilega vel við flugvöll að menn kæmust áfram án þess að þurfa að rúlla sér eins og þeir Kári og Benzinn þurftu að gera föstudaginn fyrir áramót. Leiðir voru almennt vel ruddar og hreinar og ekkert mál að feta sig áfram á sandbornum stígunum. Verst hvað leiðin er víðast illa upplýst og væri skelfilegt að fara þetta ef snjórinn væri ekki.

Engin vandamál við flugvöll, búið að naga sig í gegnum skaflana og ryðja vel. Er kom í Nauthólsvík náði Ragnar okkur loks, kvaðst hafa farið á Nes í leit að þeim hinum en ekki fundið. Það var ákveðið að fara Hlíðarfót þar sem enn var þreyta í e-m eftir laugardaginn. Þar skildi Ragnar okkur eftir og spretti úr spori. Við á eftir rólega. Er komið var hjá Gvuðsmönnum vandaðist málið því þar hafði ekki verið rutt og aðeins um þröngt einstigi að ræða, erfitt að feta sig áfram.

Er kom á Hagamel urðu fagnaðarfundir. Þar beið okkar enginn annar en sjálfur Ó. Þorsteinsson Víkingur, Formaður til Lífstíðar. Menn féllust í faðma, óskuðu hverir öðrum gleðilegs árs og flutti Formaður langan pistil um stöðu landsmála, helztu jarðarfarir og ráðningamál hjá Ríki og Borg. Á meðan biðu óþreyjufullar ungmeyjar inni í kampavínslitum jeppa Formanns eftir því að komast í Kringluna. Meðal þess sem upplýst var er að Formaður var sæmdur gullmerki Víkings á Gamlársdag, 75 ára gamalt merki, mun eldra en karamellubréfið sem Forseti Lýðveldisins hengir á menn á Nýársdag.

Það ætlaði vart að takast að slíta þessum fundi, en þó varð að halda áfram hlaupi og Formaður að keyra ungmeyjar í Kringlu á útsölurnar. Þetta var frekar linkulegt hlaup hjá okkur, en þó góð byrjun á nýju hlaupaári og nýrri hlaupaviku. Í Potti var um það rætt að næsta stórhlaup Samtaka Vorra gæti sem bezt verið hinn 29. febrúar og gæti heitið Hlaupaárshlaup. Að hlaupi loknu mætti slá upp veizlu. Og meðal annarra orða: Fyrsti Föstudagur verður haldinn næstkomandi föstudag að heimili blómasala. Verður þar opnuð Lagavulin flaska sem lengi var týnd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

stofnandi Trabantsdeildarinnar er veikur. skríbent Lýðveldisins skal bíða þolinmóður.

Jörundur (IP-tala skráð) 2.1.2012 kl. 22:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband