Gamlárshlaup ÍR 2011 - síðasta hlaup ársins

Það var ævintýri og uppskrift að vandræðum að taka sér fari með blómasalanum og Bigga. Til stóð að vera fyrir utan Bræðraborgarstíg 18 kl. 11:15 - en þeir komu loks 11:35, stuttu fyrir hlaup. Og voru þó búnir að vera að hringja í allar áttir um morguninn. Jæja, blómasalinn byrjaði á að festa sig í skafli hér fyrir utan og á eiginlega ekki að vera hægt á stórum fjallajeppa. Loks komumst við af stað og það leit út fyrir að það yrði hlaupið.

Gríðarlegur fjöldi fólks fyrir utan Hörpuna og hópur hlaupara hljóp í halarófu í hringi, upphitunarhlaup. Dr. Jóhanna og Helmut lýstu með fjarveru sinni, ætluðu í mótmælahlaup í morgun kl. 10 frá Vesturbæjarlaug. En auk fyrrgreindra hlaupara mátti bera kennsl á Melabúðarkaupmann, Dagnýju, Flosa, Guðrúnu og síðar sást til Kalla, Péturs og Alberts. Þá var sá aldni meistari Sigurður Gunnsteinsson áberandi í hlaupinu, en hvergi sást til Trabanthópsins. Hersingin hélt út á Sæbraut og það var ræst með flugeldi.

Stefnan var sett á rólegt hjá okkur blómasala og héldum við hópinn fyrstu fjóra kílómetrana, þá blandaði Dagný sér í málin og þar með var sælan búin. Hún náði að æsa blómasalann upp, en sem kunnugt er þykir honum miður að bera lægra hlut fyrir konum. Þau hertu hlaupin og yfirgáfu mig, ég hélt mig áfram á rólegu nótunum. Leiðin var ekki eins leiðinleg og ég átti von á, farið inn að Kleppi og niður hjá Eimskipum og þá leið tilbaka. Mikið af þungstígum hlaupurum á ferð og því engin hætta á að skrifari yrði síðastur.

Eitt af þessum hlaupum sem eru búin áður en þau hefjast. Skrifari kom í mark á 56 mínútum, blómasalinn á 53 og það flaug fyrir að Flosi hefði verið á 49, sem er bara bilun um miðjan vetur! Í þetta skiptið var nóg að drekka að hlaupi loknu, bæði vatn og orka og ber að fagna því. En enginn prófessor með freyðivín að taka á móti mönnum og var það miður.

Skrifari vill nota tækifærið og þakka félögum Hlaupasamtakanna fyrir ánægjulegt hlaupaár 2011 með mörgum ánægjulegum vörðum, svo sem Hamarshlaupi, Laugavegi og RM. Óska ykkur gleðilegs nýs árs með heitstrengingu um að taka enn betur á því á nýju ári. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband