28.12.2011 | 22:47
Biggi mætir í hlaup - Benzinn springur á limminu
Það taldist til tíðenda í kvöld er Biggi jógi, sá hinn sami og hafið hefur uppreisn gegn sitjandi Formanni til Lífstíðar, mætti til hlaups eftir að hafa lýst með fjarveru sinni í allt haust. Hann kvartaði yfir umsátri Jörundar, sem léti ekkert tækifæri ónotað til þess að vera með leiðindi og ónot í garð nágranna síns í tilefni af valdaránstilrauninni. Kettirnir væru orðnir taugaveiklaðir og kanínurnar varar um sig. Að ekki sé talað um heimilisfólkið. Biggi er vanur að bæta á sig tíu kílóum yfir vetrarmánuðina og menn höfðu ekki mikla trú á að hann sýndi mikið í hlaupi dagsins.
Þá er að sjá hvort skrifari muni hverjir voru mættir: Magga, Benzinn, Kári, Biggi, Helmut, dr. Jóhanna, Guðrún, Gummi, Ragnar, Frikki, Rúna og Þorvaldur. Menn spurðu: hvar er Jörundur, hvar er blómasali? Skrifari í eiturgrænum hlaupajakka sem vakti athygli. Flestir vel merktir endurskinslitum og Gummi þó til fyrirmyndar í jakka í endurskinslit. Ekki lagt upp með neitt ákveðið prógramm, en þó heyrðist nefnt Þriggjabrúahlaup þrátt fyrir að á laugardag verði þreytt Gamlárshlaup ÍR. Einhverjir í fýlu yfir að leiðinni hafi verið breytt. Skrifara fannst það óþarflega mikil tilfinninga- og íhaldssemi.
Gaman að sjá hvað fólk er létt á sér þrátt fyrir kulda og snjó, færð þó allgóð enda búið að ryðja vel alla stíga. Byrjaði með Helmut, Rúnu, dr. Jóhönnu og fleira fólki og hékk í þeim inn í Skerjafjörð. Jibbí, hugsaði skrifari, þetta verður félagshlaup. Við ætlum að fara rólega og halda hópinn. Loksins erum við orðin félagslegur hlaupahópur! Sú sæla varði ekki lengi. Fyrir Skítastöð voru þau horfin í snjóreyk og sást ekki mikið til þeirra eftir það. Athygli vakti að bæði Helmut og Biggi skipuðu sér þar í flokk, en voru ekki líklegir til afreka í hlaupi dagsins í byrjun.
Þarna paufaðist maður áfram í félagsskap við Benzinn og Þorvald. Þeir eru fámálir menn, en gefa frá sér búkhljóð. Er kom inn í Nauthólsvík sprakk Benzinn og fór að ganga, Þorvaldur fór Hlíðarfót. Skrifari áfram á Flanir. Nú var það spurningin: verður það Suðurhlíð eða verður það Þriggjabrúa. Eg hafði sætt særingum fyrir hlaup af hálfu Helmuts um að þreyta Þriggjabrúa, en færðist undan slíkum skuldbindingum. En er komið var niður fyrir Kirkjugarð og sást djarfa í fremstu hlaupara var ákvörðun tekin: það verður Þriggjabrúa í dag.
Áfram yfir brú á Kringlumýrarbraut og upp Boggabrekkuna. Færð enn ágæt, gangstétt rudd. Líðan góð er hér var komið og engin ástæða til annars en að hlakka til þess sem framundan var. Það var leiðindafærð hjá Útvarpshúsi, óruddir gangstígar og því varð að hlaupa á götunni. En eftir þetta var ekkert mál að komast leiðar sinnar á hreinum stígum. Hefðbundið hjá Fram-heimili, niður Kringlumýrarbraut og niður á Sæbraut. Forvitnilegt að sjá hvaða aðstæður bíða okkar í hlaupinu á laugardag. Sæbrautin þokkaleg, hvorki verri né betri en aðrir stígar á leiðinni. Farið hjá Hörpu, hafnarbakka og upp Ægisgötu. Komið á þokkalegu stími tilbaka, en á hægara tempói en alla jafna, bæði vegna færðar og þyngdaraukningar yfir jól.
Góð tilfinning að ná að ljúka Þriggjabrúa. Þó er enn meiri furða að Biggi, afmyndaður af fitu, skuli klára þetta hlaup með fremsta fólki eins og hann hafi ekki gert annað í haust en hlaupa. Það er til fyrirmyndar.
Nú er bara að skrá sig í Gamlárshlaup ÍR og vera með, jafnvel þótt hlaupaleiðinni hafi verið breytt!
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.