19.12.2011 | 21:17
"... það er enn rúðuvökvi á bílnum!"
Þegar líður nær jólum er eðlilegt að menn hugi að velferð sinni og sinna og leiði hugann að því með hvaða hætti þeir fái notið kyrrðar jóla. Margir falla í þá freistni að halla sér að mat og drykk með ótæpilegum hætti. Meira um það seinna. Mættur flokkur manna og kvenna í hlaup í Hlaupasamtökunum á mánudegi þegar veður voru válynd og færið erfitt. Þessir voru: Flosi, dr. Jóhanna, Kári, Benzinn, blómasalinn, Helmut, skrifari, Magnús - og svo bættust við Ragnar, Jóhanna Ólafs, Guðmundur Löve og Snorri.
Enga leiðsögn að hafa en menn settu stefnuna engu að síður á flugvöll. Ekki þarf að eyða orðum á jetsettið, það var gone in 60 seconds. Við þessir tilvonandi félagsmenn Trabant-klúbbsins vorum skynsamari og fórum á viðráðanlegu tempói. Upp kom hugmynd um að bæta við nýjum kategoríum, svo sem Bjöllu-klúbbi fyrir þá sem fara aðeins hraðar en Trabbarnir, og svo Göngugrindadeild fyrir þá sem fara enn hægar. Einhver missti út úr sér að gera mætti próf. Fróða að heiðursmeðlim í síðastnefnda klúbbnum, en það gæti líka hafa verið misheyrn.
Eins og fram er komið var færðin erfið, frosið og snjóað hafði ofan í slabb og mátti fara varlega. Allmargir á utanvegaskóm, sem gefa góða raun við þessar aðstæður. Eins og oft áður lenti skrifari einn með sjálfum sér í eigin félagsskap en öðru hverju dúkkaði Benzinn upp á stígunum, orðinn sprækur eins og lækur. Við flugbraut heyrði ég í hlaupara á eftir mér og datt einna helzt í hug að þar væri á ferðinni ónefndur blómasali að rembast við að ná skrifara. Var þó ekki alveg viss á hlaupastílnum, en heyrði næst hlauparann bölva og falla um koll. Ekki sá ég ástæðu til þess að snúa við og athuga með heilsufar téðs hlaupara, þetta eru engin góðgerðasamtök, og ef þetta hefði verið blómasalinn væri þetta bara lexía fyrir hann.
Nema hvað, Helmut dúkkar upp við hlið mér og kveðst hafa flogið á hausinn rétt í það mund að hann var að ná mér í hlaupinu. Þá örlaði á samvizkubiti hjá þessum hlaupara, en ekki lengi. Við slógumst svo í lið með Benzinum og settum stefnuna á Suðurhlíð. Ansi var maður þungur á sér í dag! Fjarvera frá hlaupum og mikill fatnaður. Suðurhlíðarbrekkan var lögð að velli og sömuleiðis brekkan upp að Perlu, en þá var aðeins staldrað við til að kasta mæðinni.
Eftir þetta var málið einfalt, einfalt stím tilbaka. Teygt í Móttökusal og skrafað við Skerjafjarðarskáld. Pottur stuttur og snarpur - upplýst að blómasalinn hefði teygt Kára eina 13 km á hægu tempói. Í tilefni jóla var rætt um mat og drykk, einkum drykk. Færð var til þessi gullvæga setning frá ónefndum manni: "Ég er ekki alkóhólisti. Það er enn rúðuvökvi á bílnum!"
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.