5.12.2011 | 21:14
Þrír hlunkar á Nesi
Það var fámennt í hlaupi dagsins, enda 6 stiga frost. Helmut, Flosi, Benzinn,skrifari, Magga, dr. Jóhanna, Magnús - og svo bættist Hjálmar við í Ánanaustum og tveir aðrir sem ég bar ekki kennsl á. Ákveðið var að fara á Nes og nefnd Bakkavör. Bakkavör þýðir erfiði og strit og því heillar það ekki þunglynda, fámála og staðfasta miðaldra hlaupara. Við leyfðum hinum yngri hlaupurum að taka stefnuna á Bakkavör, en Helmut, Benzinn og skrifari héldu út í myrkrið á Nesi. Við vorum fremur þungir á okkur, enda kappklæddir í miklum vetrarkulda. Því var það hugrekki að hverfa frá því að fara Lindarbraut, en taka strikið út hjá Gróttu.
Við slömpuðumst þetta í næturmyrkrinu og var erfitt á stundum því skafrenningur var í norðaustan vindinum og fennti í slóðina. En það var mesta furða hvílíka seiglu menn sýndu á þessum kafla þótt þeir væru eiginlega ekki að nenna þessu. Engu að síður var nauðsynlegt að halda áfram og gera sitt bezta til þess að vinna á fitusöfnun og þyngdaraukningu helgarinnar. Fáir á ferð, en bjart og fallegt í vetrarríkinu.
Þau hin voru komin tilbaka er við komum á Plan. Höfðu tekið 6 Bakkavarir og bara verið slök. Stuttu síðar kemur Magnús tannlæknir og hafði farið afar stutt, settist inn í verzlun með tannbursta sem var opin og kjaftaði þar við kaupkonuna. Misjafnt höfumst við bræður að!
Framundan Powerade-hlaup og svo hefðbundinn föstudagur. Í gvuðs friði.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Athugasemdir
Hinir óþekktu munum hafa verið Halli og ég, sem styttum um Brjálæðisholtið til að ná hópnum.
Guðmundur Löve (IP-tala skráð) 6.12.2011 kl. 15:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.