Allinn ríður ekki við einteyming

Jæja, er komið var úr Útiklefa í Brottfararsal og Jörundur mættur var óhjákvæmilegt að drægi til tíðinda: High Noon. Hann reyndi að gera sér upp sakleysi, ef ekki einfeldni. Skrifari sat þungbrýnn og leyfði honum að kveljast. Loks var ekki hjá því komizt að spyrja spurningarinnar frá því síðasta sunnudag: "Jörundur, af hverju léztu sem þú sæir ekki okkur Ólaf frænda minn á okkar hefðbundna sunnudagshlaupi á sunnudaginn eð var?" Hann setti upp furðusvip:"Ha, hvað? Ég? Hvað áttu við?" Ég útskýrði fyrir honum að við hefðum mætt honum í Skerjafirði sl. sunnudagsmorgun og hann hefði horft framhjá okkur eins og við værum ekki til. Hefðum við þó hrópað og kallað á hann. "Ha, ég hef ekki tekið eftir ykkur." Já, mjög líklegt! "Sennilega hefur sólin blindað mig" sagði hann, gjörsamlega þrotinn að skýringum. "Já, en Jörundur, veiztu ekki að sólin kemur upp í austri og þú hafðir hana í bakið þennan morgun."

Mættur flottur hópur karlhlaupara: Flosi, Jörundur, blómasalinn, skrifari, Benzinn, Bjössi, Maggi, Kalli, Denni skransali svermandi fyrir Fyrsta, og svo ungur sálfræðinemi sem ég hef ekki nafnið á. Það var ekki mikill metnaður í loftinu og var mönnum hugsað til Gústa gamla, sem liggur bara uppi í sófa í aðdraganda Marathon de Sable. Það getur ekki verið gott. En við vorum brattir í ákjósanlegu veðri og gaman að renna skeiðið á Ægisíðu.

Menn voru afar rólegir, barnakennarinn og sálfræðineminn fóru fyrir hópnum, þá komu Maggi, Kalli og skrifari, og hinir fyrir aftan okkur. Við erum þekkt góðmenni og því var beðið eftir Jörundi eftir Öskjuhlíð og fylgdi hann okkur eftir það. Áhugi á að skoða Þór á leið um Höfnina. Ef eitthvað hætti mönnum til að fara heldur hratt yfir, óþarflega hratt, enda var ætlunin að hafa rólegt félagshlaup og byggja upp góðan þorsta fyrir kvöldið.

Nema hvað, þegar komið var framhjá hinu nýja, glæsilega skipi Landhelgisgæzlunnar heyrðist kunnuglegt tipl og fram úr okkur nokkrum hlaupurum kemur orðalaust Einar blómasali og telur sig greinilega hafa unnið sigur. Skrifari þekkir hins vegar kauða og veit hvernig á að brjóta svona menn niður. Það var gefið í og tætt fram úr blómasalanum og hann skilinn eftir við Skeifu. Það var farið hratt upp Ægisíðu, signingum sleppt við Kristskirkju, en haldið áfram á hröðu tempói. Eftir ljós á Hringbraut var gefið í og sprett úr spori. Þá var blómasalinn gjörsamlega niðurbrotinn og hafði engin svör við þessum hraða.

Teygt vel á Plani og spjallað saman. Eitthvað er bræðralag þeirra Denna og Benzins farið að trosna og ganga ásakanir á báða bóga. En þegar rætt er um ávirðingar katólskra presta fyrr á árum þétta þeir raðirnar og standa saman sem einn. Svo var haldið í Pott og setið um stund. Gott að Bjössi er búinn að skila sér aftur, tekið til við sagnir þar sem frá var horfið fyrir margt löngu. Fáir segja sögur eins og Bjössi.

Í fyrramálið er í boði langt hlaup, ekki styttra en 21,1 km. 9:30, ef gvuð lofar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

1. Sálfræðineminn ætlar að skrifa meistararitgerð um karlagrobb.

2. Blómasalinn er einhver mesti hlaupari sem iðkað hefur æfingar með Hlaupasamtökum Lýðveldisins.

3. Að ofangreindum blómasala, er Jörundur Guðmundsson prentari, einhver mesti hlaupari á sínum aldri, sem slíkur.

Flosi Kristjánsson, 28.10.2011 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband