18.9.2011 | 14:18
Fyrsta haustlægðin
Mæting eins og venjulega kl. 10:10 á sunnudagsmorgni við Vesturbæjarlaug, sem enn er lokuð til kl. 11. Fyrsta haustlægðin með hvassri suðaustanátt og regndropum, ekki beinlínis óskaveðrið til hlaupa og eingöngu einbeittustu hlauparar á ferð: Þorvaldur, Einar blómasali, Ólafur skrifari og Guðmundur. Eru þeir því réttnefndir karlmenni Samtakanna. Það var talsverður barningur alla leið inn Ægisíðuna og maður þurfti að hlaupa nánast láréttur til að komast áfram. Fáir á ferð. Vísbendingarspurning: hvaða kappleikur fór fram á þessum degi á Laugardalsvelli fyrir 43 árum? Sett var vallarmet í aðsókn sem enn stendur. Lið frá Portúgal lék þann dag á vellinum. Meðal stjarna í liðinu var einstaklingur að nafni Eusobio, auknefndur Ausubjúga að sið íslenzkrar aulafyndni. Þrátt fyrir allar þessar vísbendingar höfðu félagar mínir ekki svarið og kom á óvart. Þetta hefði Ó. Þorsteinsson vitað. Þarna léku Valur og Benfica og skildu jöfn.
Rifjaður upp seinasti sunnudagur, þar sem hlauparar rákust á V. Bjarnason ekki einu sinni, heldur tvisvar. Niðurstaðan úr þeim samtölum var sú að félagi vor væri að linast í hörðustu afstöðu sinni til Samtaka Vorra og að hann gæti jafnvel fallist á að meðlimirnir væru hinir mætustu. Ennfremur var sagt frá Reykjavellshlaupi er fram fór með miklum ágætum sl. föstudag og góðri þátttöku. Þar hlupu Flosi, Jörundur, Þorbjörg, Jóhanna, Bernard, Friedrich Kaufmann, Benedikt, Ágúst, Haraldur, skrifari, Magga og Þorvaldur. Helmut og Denni á hjólum og Kalli kom inn í hlaup á miðri leið. Hlaup tókst harla vel, utan hvað Helmut og Denni misstu hjólin undir lok hlaups og urðu að hlaupa síðasta spölinn. Farið í pott í Varmárlaug, kalt bað innifalið og svo stefnt að Reykjafelli. Þar var slegið upp mikilli veizlu með úrvals pastaréttum, brauði og salati. Bjarni Benz bauð upp á Cadbury´s súkkulaði sem blómasalinn hafði skenkt honum.
En aftur að hlaupi dagsins. Við náðum Nauthólsvík með harmkvælum og dokuðum við þar í skjóli af húsum. Héldum svo áfram í Kirkjugarðinn þar sem tekin var hefðbundin sunnudagsganga framhjá leiðum. Velt upp möguleikanum á þátttöku í haustmaraþoni. Upp hjá Veðurstofu, Hlíðar, Klambra, Hlemm og við Sjóklæðagerðina var veitt athygli framkvæmdum í nýju kínversku sendiráði. Verður það viðfangsefni næstu sunnudagshlaupa að fylgjast með framvindu framkvæmda.
Lensinn á Sæbrautinni, en strengur við Hörpu. Hlaupið alla leið tilbaka, en dokað við á Landakotshæð. Góð tilfinning að koma tilbaka í veðri sem fælir marga hlaupara frá hlaupi. Slíkir eru kallaðir "sólskinshlauparar". Í Pott mætti Ó. Þorsteinsson hafandi misst af hlaupi dagsins, svo kom dr. Baldur og loks Stefán verkfræðingur. Rætt um menningarviðburði og bókaútgáfu haustsins. Ennfremur gengi knattspyrnuliða í Austurbænum.
Hvað er framundan?
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 20:37 | Facebook
Athugasemdir
Hér verður að færa til bókar, tvo hlaupara til: Melabúða kaupmanninn, Friðrik og Benedikt. Melabúðakaupmaðurinn lengdi fram og til baka og endaði á hringsóli; bað mig að vera héra, sem ég gerði á köflum. Aldrei þessu vant lét Ágúst ekki draga sig í lengingu, sem er fátítt, kannski einsdæmi.
Benedikt (IP-tala skráð) 18.9.2011 kl. 17:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.