15.8.2011 | 20:48
Játning
Nokkur fjöldi hlaupara mættur á mánudegi í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar. Þar mátti þekkja dr. Friðrik, Magga, Flosa, Benzinn, Kára, Helmut, prófessor Fróða, dr. Jóhönnu, Einar blómasala, Ólaf ritara og svo bættust Ragnar, Þorbjörg og Frikki Meló í hópinn á leiðinni og mig minnir að Pétur baðvörður hafi verið með í för líka. Síðasta æfingavika fyrir RM og voru hlauparar því rólegir. Farnir 10-12 km á hægu tempói.
Þekkt andlit sem fóru fyrir hópnum, en ritari var skynsamur og ekkert að derra sig. Fór enda svo að hann tíndi blómasalann upp af leið sinni og fór með hann Suðurhlíð, en blómasalinn hafði ætlað að stytta um Hlíðarfót, kvaðst vera kvefaður! Raunar fór svo að við urðum á ganga á þessu stutta hlaupi vegna veikinda blómasalans, eða meintra veikinda ætti ég heldur að segja.
Hlaupasamtökin fylltu barnapottinn og var glatt á hjalla. Þar var einnig mætt Sif Jónsdóttir langhlaupari og var mikið rætt um meiðsli og veikindi ýmiss konar. Rætt um hlaup, göngur, hjólreiðar o.fl. Prófessor, sem ekki verður nafngreindur hér af tillitssemi við fjölskyldu hans og vini, játaði að hjólreiðar væru skemmtilegri en hlaup. Kom það mörgum viðstöddum í opna skjöldu, enda töldu þeir að mörg löng hlaup téðs aðila yrðu ekki skýrð öðruvísi en að hann hefði gaman af að hlaupa. Margir viðburðir framundan, ganga á Fimmvörðuháls í beinu framhaldi af RM.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.