Fyrsta hlaup í ágúst - Frídagur verzlunarmanna

Mættir til hlaups á mánudegi: Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur og Ólafur ritari. Bílastæði tóm og því valdi Þorvaldur sér tvö stæði frekar en eitt fyrir bíl sinn. Ólafur Þorsteinsson kom akandi á smábíl óræðrar gerðar þar eð jeppabifreið hans er til viðgerðar eftir að ekið var á hurð hennar á Blönduósi fyrir nokkru.

Veður eins og bezt verður kosið til hlaups: logn, þurrt og 14 stiga hiti. Fylgt sunnudagsprógrammi þar eð laug opnaði ekki fyrr en 11, lagt í hann kl. 10:10. Farið út í rólegheitum eins og hefð er um á sunnudögum og rætt um kennaralista í raungreinadeildum Reykjavíkur Lærða Skóla. Þar er valinn maður í hverju rúmi. Ennfremur rætt um gengi knattspyrnuliðs í Austurbænum, en staða þess er ekki nógu vænleg í deildinni.

Héldum tempói inn í Nauthólsvík, en þar var staldrað við og genginn spölur meðan sagðar voru sögur. Er komið var inn í kirkjugarð upplýsti Formaður að hann hefði nýverið renóverað stuepige-herbergi á Kvisthaga, sett þar upp geymsluhillur sem hann höndlaði í Byko og Ikea og raðað þar munum úr geymslu sem hann vildi varðveita. "Hvað segirðu?" sagði Jörundur forviða. "Gerðiru allt þetta sjálfur? Varstu ekki með mann í því?"

Farið áfram um Veðurstofuhálendið, niður í Hlíðar, Klambratún og Hlemm. Á Sæbraut hóf Þorvaldur mikinn reiðilestur um Hörpuna, taldi hana afkáralegan arkítektúr, en Jörundur kom byggingunni til varnar. Á Kæjanum rifjaði Ó. Þorsteinsson kynni sín frá í gær af skipherranum á Dannebrog sem tekinn var tali á morguntúrnum og mátti vart greina á milli hvor væri danskari í málfari.

Í gær komu í Pott dr. Einar Gunnar og dr. Baldur, auk þeirra hjóna Stefáns og Helgu, en í dag var allt annað klíentel, utan hvað dr. Mímir lét svo lítið að kíkja til okkar. Framundan eru stórar ákvarðanir: hverjir ætla í heilt maraþon í Reykjavík? Jörundur er klár, Biggi hefur verið með yfirlýsingar og fleiri finna fyrir þrýstingi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband