Fámennt að hlaupi dagsins: Þorvaldur, Flosi, Helmut, Ragnar, Pétur, Ólafur ritari, Guðrún, dr. Jóhanna, en aðrir víðsfjarri. Gott veður, gola, skýjað, 15 stiga hiti. Farið hratt út, ekki undir 5:20. Samt var stefnt að því að fara hægt. Fljótlega mynduðust grúpperingar: Jóhanna, Ragnar og Pétur í fremsta flokki, svo komum við Flosi og Helmut, og einhverjir ráku lestina.
Sama þétta tempó inn í Nauthólsvík og við Helmut flottir, gamli barnakennarinn eitthvað að hiksta er þangað var komið. Áfram að Kringlumýrarbraut, þar mættum við Laugaskokki á gríðarlegu tempói. Yfir brú og upp brekku, hún var erfið að venju, en stutt, og menn andstuttir er upp var komið á Bústaðaveg.
Enn héldum við hópinn við Helmut á tölti yfir Útvarpshæð, en fljótlega í Hvassaleitinu heyrðum við fnæsið í Flosa og hafði hann greinilega lagt nokkuð á sig að ná okkur, því að brekkur eru erfiðar gömlum barnakennurum. En hann lét sér ekki nægja að ná okkur við Kringlu, heldur geystist fram úr okkur og lengdi bara fjarlægðina á milli okkar. Þetta var enginn áburðarjálkur, þetta var fjögra vetra foli!
Á Kringlumýrarbraut er hefðbundið að taka 4 mín. spretti - en þeir létu á sér standa hjá þessum hlaupara. Í mesta lagi að farið væri á 5 mín. spretti niður úr. Við mættumst á ljósum, en það breytti ekki því að Flosi hélt áfram á æðisgengnu tempói og skildi okkur eftir.
Sæbrautin er lengsti og leiðinlegasti hlutinn af Þriggjabrúaleiðinni og þar var kjagað áfram. Drukkið við Fontinn og svo farið hjá Hörpu. Hér sá ritari sér leik á borði og stytti, en þeir hinir fóru hjá Verbúðum. Upp Ægisgötu og allir komum við nokkurn veginn á sama tíma til Laugar. Hratt hlaup og sveitt og góð uppbygging fyrir frekari átök svo sem á laugardag, þegar áhugi er fyrir 20 km hlaupi að morgni.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.