25.7.2011 | 20:28
Sjötugsafmæli, um hvað var rætt?
Ekki er erfitt að geta sér til um hvaða umræðuefni Vilhjálmur Bjarnason hefur fitjað upp á í sjötugsafmæli dr. Einars Gunnars Péturssonar þegar hann hitti aldavin sinn, Ólaf Þorsteinsson, Formann Hlaupasamtaka Lýðveldisins, en Einar Gunnar fyllir sjöunda tuginn í dag, 25. júlí, þessi mæti félagi án hlaupaskyldu. Að líkindum hefur hann fært í tal stórtap tiltekins knattspyrnuliðs í Austurbænum gegn Norðanmönnum um síðastliðna helgi. En svo hafa fróðir menn sagt að sézt hafi til kampavínslitrar jeppabifreiðar bruna úr bænum á föstudag og var stefnan sett á Hvalfjarðargöng, en endastöð ákveðin Akureyri. Þar hefur svo okkar maður þurft að sitja undir miklum óförum síns heimaliðs og er óþarfi að vera að strá salti í sárin með því að nefna markatölur, og hefur trúlega ekki liðið vel. Hver segir líka að fólki eigi að líða vel? Líður ekki sumum bezt illa?
Allt um það var mæting góð í hlaupi dagsins og margir frambærilegir hlauparar mættir, þ.á m. dr. Friðrik Guðbrandsson í fyrsta skipti í sex vikur. Þá sáust Þorvaldur, Flosi, Helmut, Jörundur, ritari, dr. Jóhanna, Magga, Guðrún, Pétur Einarsson og Hjálmar. Sól og kjörið veður til hlaupa, ekki of heitt og einhver gola. Flestir lögðu af stað á töluverðum hraða, 5:20 - við Jörundur fórum hægar og settum stefnuna á 10 km Suðurhlíðarhlaup. Fiskuðum upp Guðrúnu á leið okkar, en vitum ekki hvað varð af þeim hinum, líklega endað á sprettum í Öskjuhlíð.
Fórum neðan garðs og út á Kringlumýrarbraut, upp Suðurhlíðína og reyndist hún lítil fyrirstaða hlaupurum nýsnúnum heim af Laugavegi (þar eru margar brekkurnar. Upp að Perlu og svo niður Stokkinn. Hér jukum við hraðann og fórum greitt á Hringbraut þar sem farið var að blása. Létt og ánægjulegt upphitunarhlaup og boðar gott um það sem á eftir kemur.
Í Pott mættu auk hlaupara, Sif Jónsdóttir langhlaupari og sigurvegari í Vesturgötuhlaupi sl. helgi, og Biggi óhlaupinn. Hlaupasamtökin lögðu undir sig Örlygshöfnina og ruddu öðrum gestum úr potti með kjaftagangi og uppivöðslusemi. Einhverjir ætla að fara heilt í Reykjavíkurmaraþoni og var Biggi helzti hvatamaður þess, sórust menn í fóstbræðralag utan um þetta verkefni í pottinum, en létu eiga sig að opna sér æðar og blanda, guðsélof.
Nú geta menn smásaman farið að bæta við vegalengdir, fara t.d. Þriggjabrúa n.k. miðvikudag. Helmut og ritari sjanghæjaðir í að bera þvottavél fyrir Jörund, en fengum ekkert kalt að drekka á eftir.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.